620. - Um Ketil Sigurjónsson og Halldór E. Sigurðsson

Eitt skemmtilegasta bloggið hér á Moggablogginu er Orkubloggið hans Ketils Sigurjónssonar. Hann fylgist vel með öllu sem að orku lýtur og er mjög vel skrifandi. Greinarnar hans eru stórfróðlegar og svo langar og ýtarlegar að ég skil ekki hvernig hann má vera að þessu.

Auk þess myndskreytir bloggið sitt líka ævinlega og setur það vel upp. Fleiri blogg hér eru auðvitað mjög góð en Ketill einskorðar sig við orkumál og aðrir standa honum ekki framar þar svo ég viti.

Skoðanakannanir sem nú er hamast við að birta og túlka sem stuðning við Fjórflokkinn eru lítils virði. Það liggur ekki fyrir hvaða listar verða í framboði á hverjum stað eða hverjir verða á þeim listum. Á meðan er afar lítið að marka slíkar fylgiskannanir. Blaða- og fréttamenn þurfa þó að leika sér við eitthvað og þetta er ekki verra en hvað annað.

Hvort skoðanakannanir séu skoðanamyndandi eða ekki er spurning sem erfitt er að svara. Skynsamlegt er að banna opinbera birtingu á niðurstöðum kannana síðustu dagana fyrir kosningar. Það hefur verið gert víða og mér er ekki kunnugt um að það hafi gefist illa.

Á afmælisdaginn minn þegar mig vantaði eitt ár í fertugt var Borgarfjarðarbrúin vígð. Ég átti þá heima í Borgarnesi og var að sjálfsögðu viðstaddur vígsluna. Þessi dagur 13. september 1981 er mér þó ekkert sérlega minnisstæður. Ég man að Halldór E. Sigurðsson fyrrum ráðherra flutti aðalræðuna við vígslu brúarinnar og var það eðlilegt.

Halldór Eggert Sigurðsson var litríkur persónuleiki eins og sagt er. Sat á Alþingi frá 1956 til 1979. Var ráðherra 1971 til 1978. Samgönguráðherra þegar byrjað var á Borgarfjarðarbrúnni. Einnig fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra. Fæddist árið 1915 og dó árið 2003. Halldór var sveitarstjóri í Borgarnesi áður en hann settist á þing.

Ekki veit ég af hverju ég er að skrifa þetta um Halldór E. Ég man að ég hitti hann í Skallagrímsgarði á þjóðhátíðardaginn vorið sem Vigdís Finnbogadóttir var kosin forseti. Þar hrósaði hann mér fyrir ræðu sem ég hafði flutt á samkomu til stuðnings forsetaframboði Vigdísar nokkrum dögum fyrr. Halldór var einn af þekktustu stuðningsmönnum hennar úr hópi stjórnmálamanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

algerlega sammála þér með Orkubloggið.. ég les það í hvert sinn sme hann birtir það og stundum þarf ég nokkrar umferðir á greinaranr til að skilja þær til fullnustu.

Óskar Þorkelsson, 2.3.2009 kl. 20:30

2 identicon

Ort um Halldór E. þegar hann var fjármálaráðherra.

Aura að sjúga allstaðar.

eykst því stöðugt vandinn.

hafa sama hugarfar

Halldór E. og fjandinn..      Og hefur þó margt versnað síðan þá.

Ágúst Guðmundsson 3.3.2009 kl. 09:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband