589. - Stjórnarmyndunarmenúettinn stiginn

Fjölmiðlungar eiga svo annríkt þessa dagana að þeir mega hvorki vera að því að borða eða sofa. Stjórnmálaleiðtogar safna snjókúlum af miklum ákafa og fela á ólíklegustu stöðum. Ekki veitir af vopnunum í komandi kosningaslag. 

Hörður Torfason stóð fyrir einni samkomunni enn á Austurvelli. Margar af þeim kröfum sem orðaðar hafa verið þar eru orðnar úreltar einfaldlega vegna þess að við þeim hefur verið orðið. Nýjasta krafan er að skora er á forsetann að skipa utanþingsstjórn. Þetta er ekki einu sinni á hans valdi ef alþingismönnum tekst að koma saman einhvers konar stjórn.

Það merkasta sem mögulegt er að fram komi núna er stjórnlagaþing. Ég óttast að eins fari fyrir því máli og eftirlaunaósómanum. Það verði einfaldlega talað í kaf. Ekkert mundi grafa eins undan valdi alþingismanna og ný stjórnarskrá.

Oft er talað um þrískiptingu valdsins. Á Íslandi er engin slík skipting. Alþingi ræður öllu. Óli reynir í örvæntingu að ná einhverju valdi til sín en Sjálfstæðismenn reyna jafnóðum að skjóta allt slíkt í kaf. Auðvitað er óæskilegt að ráðherraræðið sé eins mikið og það er. Framkvæmdavaldið getur þó alls ekki funkerað nema með samþykki Alþingis. Þetta samkrull kallast fulltrúalýðræði eða þingbundið lýðræði. Áður var hér þingbundin konungsstjórn. Þjóðin kom svo í staðinn fyrir kónginn og fékk að velja sér forseta. Bara til skrauts. Vald kóngsins kom frá Guði. Vald forsetans er ekki neitt.

Eitthvað er þó að breytast. Óli neitaði að skrifa undir lög og davíðinn fór í fýlu. Óli þykist hafa þingrofsvald og alles. Ekki þorði Geirharður að láta reyna á þetta með þingrofið. Tuldrar bara í barm sér: "Víst má ég rjúfa þing."

Einu sinni var ég prófdómari við Laugagerðisskóla á Snæfellsnesi. Það var séra Árni Pálsson í Söðulsholti sem kom mér í það embætti og mér er nær að halda að þar hafi engin pólitík komið við sögu.

Eins og oft er í skólum voru allmargir kennarar við Laugagerðisskóla dálítið vinstrisinnaðir. Ekki man ég hver var menntamálaráðherra á þessum tíma en ég man að mest krassandi hryllingssagan sem sögð var í sambandi við kosningar sem stóðu fyrir dyrum var að ef menn gættu sín ekki þá gæti Ragnhildur Helgadóttir orðið næsti menntamálaráðherra.

Þetta rættist og ég varð meira að segja svo frægur að hitta hana eitt sinn á fundi ásamt fleirum í Menntamálaráðuneytinu við Hverfisgötu. Þar var líka Jónas Kristjánsson sem fulltrúi Videoson. Gott ef við vorum ekki að ræða um að Videokerfin í landinu tækju við rekstri Sjónvarpsins. Nei, segi bara svona. Man ekkert hvað við vorum að vilja þarna.

Síðan þetta var hafa Sjálfstæðismenn yfirleitt ráðið lögum og lofum í Menntamálaráðuneytinu eins og í landsstjórninni yfirleitt.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband