410. - Söltunartilraunir dómsmálaráðherra

Ég held að Björn Bjarnason sé að reyna að salta stóra Ramsesarmálið. Hann gerir sér eflaust grein fyrir því að bloggarar margir bíða með spenntan bogann eftir því að hann staðfesti úrskurð Útlendingastofnunar. Varla þorir hann að snúa honum við. Það bæri vott um karakterveikleika og gæti gefið slæmt fordæmi.

Líklega er hann að leita að leiðum til að tefja málið og einnig vonar hann eflaust að eitthvað gerist fljótlega sem auðveldi honum þetta allt. Þó hljótt sé um þetta mál að sinni er andstaða fólks við úrskurð Útlendingastofnunar í málinu lifandi enn. Þetta mál hefur margt sem bendir til að það geti orðið að nýju Gervasoni-máli. Varla mun þó ríkisstjórnin springa vegna þess.

Margir virðast hafa hætt að blogga að undanförnu eða að minnsta kosti tekið sér frí um hásumarið. Aðrir koma bara í staðinn og ég sé ekki neitt lát á vinsældum moggabloggsins. Bilanir eins og urðu um daginn geta þó reynt á þanþolið en starfsmenn virtust bregðast vel við vandanum.

Ég er alltaf að finna betur og betur hvað það er sem fólk vill lesa. Mjög margir kíktu á síðuna mína í gær og má ýmsar ályktanir af því draga. Vinsældir eru þó ekki allt þó margir virðist skrifa aðallega þeirra vegna. Mest er um vert að hafa eitthvað að segja og vera ekki einatt að bergmála aðra.

Ef einkum er verið að blogga fyrir vini og vandamenn er fullkomlega eðlilegt að blogga aðallega um sjálfan sig og það sem á dagana drífur. Sumir gera það reyndar svo skínandi vel að skrifin eiga vissulega erindi til annarra.

En þegar menn eru óforvarendis gerðir að forsíðubloggurum, eins og ég hef leyft mér að kalla aðalinn hér á moggablogginu, þá leggur það viðkomandi vissar skyldur á herðar. Þannig lít ég að minnsta kosti á.

Það er merkilegt hvað maður endist til að skrifa uppá því sem næst hvern einasta dag. Sárasjaldan tekst mér að skrifa fyrirfram þó oft ætli ég mér það.

Fréttaskýringar og að oft sé linkað í fréttir á hverjum degi hugnast mér lítt. Öðrum getur þó líkað það vel og oft getur verið fengur að því að fá sjónarmeð ákveðinna aðila á heitustu fréttirnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ég held, þvert á móti, að hvorki Björn né léttadrengir hans sitji auðum höndum. vitanlega er löngu vitað hver úrskurðurinn verður og hann hefur löngu verið prentaður út og safnar nú ryki uppi í hillu.

nei, nú vinna menn að því hörðum höndum að finna tylliástæður og sjóða saman röksemdafærslur til að verjast komandi gagnrýnisröddum bloggara sem og öðrum þjóðarmeðlimum, eftir að úrskurðurinn verður birtur.

Brjánn Guðjónsson, 5.8.2008 kl. 02:27

2 Smámynd: Þröstur Unnar

Hann hefur sagt það opinberlega að málið muni klárast um miðjan ágúst, misstirðu af því?

Þröstur Unnar, 5.8.2008 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband