371. - Áður og nú. Allir geta tekið myndir

Það er erfitt að blogga eitthvað af viti í þessari rjómablíðu sem er alla daga. 

Skelfing hvað fjölmiðlun er orðin tætingsleg. Áður fyrr gat maður gengið útfrá því sem vísu að næstum allir á vinnustaðnum hefðu horft á sömu sápuna kvöldið áður og hafið umræður útfrá því. Nú eru það í mesta lagi ísbjarnarfréttir og Evrópumót í knattspyrnu sem geta sameinað þjóðina. Kosningar kannski líka.

Mér finnst oft að það sem ég gref upp á Netinu hljóti allir aðrir að vita líka. Auðvitað er ekki svo. Netið er alveg svívirðileg ruslakista og tímaþjófur en líka glóir þar margt svo fallegt að með ólíkindum er.

Í gamla daga var lífið talsvert einfaldara en núna. Það finnst manni að minnsta kosti. Þá var bara eitt ríkisútvarp, ekkert sjónvarp, ekkert Internet og farsímar þekktust ekki. En er lífið nokkuð betra þrátt fyrir öll þægindin og auðæfin? Eru menn ekki alveg eins neikvæðir og skömmóttir og vant er? Jú, maður getur étið á sig gat, tortímt sjálfum sér með rándýrum eiturlyfjum, farið oft á ári til útlanda, átt þrjá bíla og allt það, en er hláturinn betri, ástin sterkari, veröldin fegurri og fullnægingin kröftugri en var. Ég efast um það.

Það sem áður var erfitt og útheimti mikla fyrirhöfn er nú orðið svo auðvelt að gamalmenni geta fengist við það í hjáverkum. Mér datt þetta í hug þegar ég sá að nokkrir höfðu kommentað jákvætt á myndirnar sem ég setti hér á bloggið í gær. Það var erfitt að taka myndir í gamla daga en nú er þetta svo auðvelt og fyrirhafnarlítið að það er næstum hlægilegt.

Það eina sem þarf að athuga er að myndefnið kemur ekki til manns. Það þarf að sækja það. En vangaveltur um allan fjandann eins og hyperfókus, lýsingu og þess háttar er hægt að láta vélina sjá um. Ekki þarf að bíða vikum og mánuðum saman til að sjá árangurinn eins og var. Og í staðinn fyrir að vera rándýrt tómstundagaman kostar þetta í rauninni ekkert. Ef maður vill og nennir er líka hægt að doktora myndirnar til eftirá að vild með allskyns forritum. Bæta hlutum við, taka þá í burtu, breyta litum, skýrleika, upplausn og gera allt sem nöfnum tjáir að nefna.

Það er ekki bara auðvelt núorðið að taka myndir. Hver grefur skurð með skóflu og haka nútildags? Hver stritar við að moka sandi á bílpall, eða hræra steypu með höndunum? Hver gefur rétt til baka eftir að hafa slegið verðin inn á Hugin kassa eða leggur saman langar talnarunur í huganum?

Merkilegt hve fólk gat búið þröngt og sætt sig við lélegan aðbúnað áður fyrr. Hundrað fermetra íbúð fyrir átta manna fjölskyldu var þvílíkur lúxus að það var vel þess virði að strita mestalla ævina og eyðileggja heilsuna fyrir það.

Jæja, ekki dugir þetta. Þarf að fara að sofa. Nokkrar myndir í lokin bara af því ég get þetta.

IMG 1188IMG 1206IMG 1223tilr 1tilr 2tilr 3


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég man þegar eina útvarpsefnið í beinni útsendingu voru jarðarfarir og nutu feikilegra vinsælda.

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.6.2008 kl. 00:16

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Góður pistill hjá þér Sæmundur.  Það er víst ekki hægt að kaupa hamingju og ég held að fólk hafi stundum ekki tíma til að vera hamingjusamt, einfaldlega vegna þess að það á of marga hluti.  Það þarf að laga þvottavélina, fara með nýja heimabíóið í viðgerð, læra á róbótinn og setja batterí í fjarstýringarnar.  Svo þarf að þurrka af öllu draslinu.  Það fer m.ö.o. svo mikill tími í öll þessi tæki sem eru "nauðsynleg lífsgæði" að það gefst þá ekki tími fyrir einlægar hamingjustundir á meðan.  

Skemmtilegt komment hjá Sigurði.  

Anna Einarsdóttir, 23.6.2008 kl. 13:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband