323. - Svarhali, matur og trampólín

Alllangur svarhali myndaðist við eina af vísum Más Högnasonar. Venjulega eru langir svarhalar frekar leiðinlegir, en þessi er bara ágætur, einkum fyrir vísnavini. Þetta segi ég náttúrulega mest vegna þess að þarna eru nokkrar vísur eftir mig.

Vorið er komið. Það sýna trampólín-slysin, segir lögreglan. Og þá þarf ekki frekar vitnanna við.

Ætli ég láti ekki skoðanakönnunina frá því í gær vera uppi í svona einn dag enn. Það er svolítil þátttaka í þessu. Mesta furða.

Erna á Stakkhamri bloggaði um daginn um kartöflukonfekt að mig minnir. Ég man vel eftir því að mamma gerði alltaf í gamla daga tvær tegundir af konfekti fyrir jólin. Annað var kartöflu-konfekt, sem mér er ekki alveg ljóst hvort hlaut þetta nafn vegna kartaflna eða kartöflumjöls. (trúlega mjöls þó) Gott var það samt og marglitt og líklega var hellingur af flórsykri í því. Hin tegundin var hafrakonfekt. Í því var haframjöl, en einnig heilmikið af súkkulaði og svo var því í lokin velt uppúr kókosmjöli.

Ef ég á að fara að blogga um mat, þá er ekki víst að ég geti stoppað. Auðvitað var maturinn hennar mömmu sá besti. Segja það ekki allir? Annars þótti mér siginn fiskur aldrei sérlega góður. Reykt ýsa ekki heldur. Flest annað minnir mig að ég hafi borðað með sæmilega góðri lyst.

Prýðilegt var að hafa tómatsósu útá fisk í stað hamsanna, sem samt voru ágætir. Líka mátti hafa útá hann brúna kjötsósu ef hún var til eða jafnvel smjör eða smjörlíki. Oft fór svo mikill tími í að hreinsa fiskinn, brytja kartöflurnar, setja sósuna útá og stappa allt í einn graut eftir kúnstarinnar reglum að maturinn var orðinn hálfkaldur þegar maður var loksins tilbúinn. Já, nú man ég. Það var þessvegna sem mér líkaði hálfilla við hamsatólgina. Hún varð bragðverri og leiðinlegri þegar hún kólnaði.

Fiskur var æði oft á borðum, og saltfiskur alltaf á laugardögum, en fjölbreytnin í eldun á fiski var ekki sérlega mikil. Yfirleitt var hann bara skorinn í stykki og soðinn í vatni. Fiskur var líka hræódýr. Ég man að þegar ég var útbússtjóri í Kaupfélaginu í Hveragerði þá kostaði kílóið af ýsunni sjö krónur meðan kjötfarsið kostaði átján eða nítján krónur og sígarettupakkinn annað eins. Það þætti ekki afleitt hlutfall í dag. Og auðvitað voru þetta gamlar krónur.

Auðvitað smakkaði ég aldrei pizzur eða hamborgara og þreifst samt ágætlega. Á sunnudögum var alltaf lambakjöt, læri eða hryggur og svo ís á eftir. Þetta þekkja nú allir og óþarfi að fjölyrða um það. Verst var kartöfluleysið, sem var næstum árvisst, því ekki þótti við hæfi að flytja inn kartöflur, sem þó voru nauðsynlegar á þessum árum með öllum mat. Reynt var að gera grænkálsjafning eða eitthvað þess háttar, en kartöfluleysið var samt kvöl og pína og oft var frekar farið út í kálgarð og tekið upp undan fáeinum grösum, þó auðvitað væri ansi smátt undir þeim.

Bræðingur var ekki góður ofan á brauð. Þá var nú smjörlíkið skárra. Oft var smjöri og smörlíki blandað saman til að nota ofan á brauð. Kökur og annað bakkelsi var alltaf til. Mjólk var drukkin með flestu og aldrei man ég eftir öðru en við krakkarnir fengjum eins mikið af öllu og við vildum. Auðvitað réðum við samt ekki hvað var á boðstólum. Vignir bróðir minn fann einu sinni uppá því að kalla magurt kjöt feitt og feitt kjöt magurt og spratt allskyns misskilningur útaf því uppátæki. Uppáhaldsgrautarnir mínir voru fyrir utan grjónagraut með rúsínum, sætsúpa, kakósúpa og tvíbökumjólk.

Ég átti það til sem krakki að misskilja algeng orð. Til dæmis fannst mér alltaf að sungið væri: "Nú blikar við sólarlag sætsúpan köld". Mér þótti sætsúpan einmitt betri köld og ekki var verra ef smá rjómasletta var útá hana. Ég átti líka alltaf erfitt með að gera greinarmun á orðunum "einfættur" og "innfæddur". Brauðsúpu var helst ekki hægt að borða nema með rjóma. Hann þótti mest íþrótt að borða ásamt súpunni um leið og hann bráðnaði ofaná henni. Jæja, nú hætti ég.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

mmmm, þú lætur mann fá vatn í munninn af þessu...minnir mann á gamla daga.  Mér fannst flattur, sólþurrkaður, vel saltaður saltfiskur bestur með sykri útá og smjöri og stöppuðum kartöflum, namminamm...!! Verst hvað fiskurinn er orðinn dýr...flestir hættir að borða hann þess vegna..nema efnaða fólkið. Það hefur efni á þessu þrisvar í viku eða svo. Ég er búin að vera að reyna að redda mér ódýrum fiski...en það er ekki einu sinni hlaupið að því lengur. Og frosni fiskurinn sem fæst í t.d Bónus er oftast óætur. Svo eru fiskbúðir ekki lengur á hverju strái eins og í gamla daga.  Hvar á maður eiginlega að fá almennilegan fisk á Íslandi, það er ekki einu sinni hlaupið að því lengur, mér finnst þetta skítt.  Ég lærði að gera tvíbökumjólk um daginn, býsna góð:)

En góða helgi. 

Ein sem saknar þess að fá góðan fisk á Íslandi.

alva 2.5.2008 kl. 20:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband