301. - Um Kristján B. Jónasson og höfundarréttarmál

Kristján B. Jónasson sem mér skilst að sé formaður félags íslenskra bókaútgefenda heldur úti bloggsíðunni Bókatíðindin hér á Moggablogginu og tekur sig öðru hvoru til og skrifar þar langar greinar um aðskiljanlegustu mál. Þær eru yfirleitt ágætlega læsilegar, en skoðanir hans eru oft ansi íhaldssamar. Kristján leyfir ekki athugasemdir eða komment á sínu bloggi.

Nýlega skrifaði hann grein um tjáningarfrelsi og höfundarrétt. Þar býr hann sér til strámann einn mikinn og fúllyndan í líki Salvarar Gissurardóttur og tekur síðan til við að skjóta skoðanir hennar (sem hann hefur sjálfur búið til) niður. Auðvitað er Salvör fullfær um að svara fyrir sig, ef henni finnst taka því, og hefur ef til vill þegar gert það. Mér eru þó höfundarréttarmál nokkuð hugleikin eftir að ég stóð í því um nokkurra ára skeið að koma Netútgáfunni (snerpa.is/net) á fót.

Höfundarréttarmál voru okkur á margan hátt til trafala þegar við stóðum í að setja efni á Netútgáfuvefinn. Allskyns vandræði af öðrum toga áttum við einnig við að glíma. Svo ótrúlegt sem það er þá  eru margir þeirrar skoðunar að t.d. Íslendingasögurnar eigi alls ekki að vera öllum aðgengilegar, heldur eigi þær að halda áfram að vera féþúfa þeirra sem einhverntíma hafa komið nálægt útgáfu þeirra. Á þeim árum sem Netútgáfan starfaði var lögum um höfundarrétt breytt og gildistími höfundarréttar til dæmis lengdur úr 50 árum í 70 ár eftir dauða höfundar. Ekki hefur verið sýnt fram á neina skynsamlega ástæðu fyrir þessari lengingu.

Það er ekki rétt hjá Kristjáni að almenn viðurkenning sé fyrir því á Vesturlöndum að með höfundarrétt skuli farið á sama hátt og með annan eignarrétt. Miklu nær er að líta á höfundarrétt sem einskonar samning milli höfunda og almennings um að greiðsla skuli koma fyrir afnot af höfundarréttarvörðu efni, þannig að höfundar skuli hafa nokkra umbun fyrir sitt erfiði. Mér finnst lang eðlilegast að þessi höfundarréttur gildi í ákveðinn tíma eftir að verk er gefið út.

Það er einungis hér á Vesturlöndum sem litið er á höfundarréttarvarið efni sem eign. Mjög auðvelt er að gera greinarmun á efnislegum gæðum og óefnislegum. Það eru bara útgefendur og eigendur flutningsréttar sem halda því fram að á þessu tvennu sé ekki hægt að gera greinarmun

Það getur verið að það henti Kristjáni vel að líta svo á að annaðhvort aðhyllist menn allt sem útgefndur segi í þessum efnum eða séu á þeirri skoðun að afnema beri með öllu greiðslur fyrir höfundarrétt. Ég er þó þeirrar skoðunar að milliveg sé  hægt að finna.

Þeir sem sækja sér efni á  sjóræningjavefsetur eru alls ekki neinir þjófar og misindismenn. Þeir vilja bara ekki sætta sig við yfirgang og féflettingar af hendi höfundarréttarsamtaka sem oftast eru hjómplötuútgefendur og kvikmyndaréttareigendur. Áreiðanlega vilja þeir ekki hafa neitt af rithöfundum, ef eðlilegt er að álíta að höfundarnir eigi rétt á greiðslum og þeir væru eflaust tilbúnir til að borga fyrir sitt efni, en bara ekki það sem samtök höfundarréttareigenda vilja skikka þá til að greiða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég meina það og hef ekkert meira að segja

Gunnar Helgi Eysteinsson, 9.4.2008 kl. 06:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband