250. - Um rím, vísur, myndir, peninga og margt fleira

Rím er tímatal. Þetta blasir kannski ekki við öllum. Sumum finnst rím bara vera rím. Það er að láta orð ríma. En það er bara ein merking orðsins.

Fingrarím er sú íþrótt kölluð að geta reiknað út á fingrum sér mánaðardaga og vikudaga eftir dagsetningum og svo framvegis. Sagt var um einn útfarinn fingrarímara að hann hefði getað reiknað út hvernig stóð á tungli í Svoldarorrustu. Ekki sel ég það dýrar en ég keypti. Sigurþór stúkukall kunni fingrarím í gamla daga í Hveragerði. Svo var að minnsta kosti sagt.

Einhverju sinni kom það upp ekki löngu eftir jól á Hólum í Hjaltadal að enginn vissi hvenær Páskar væru það árið. Þetta þótti afleitt og alls ekki biskupi sæmandi. Menn voru því gerðir út í skyndi til að fara þvert yfir hálendið og að Skálholti til að komast að þessu. Þarna rugluðust menn alvarlega í ríminu.

Sextíu og sjö milljarða tap er talsvert. Gott að ríkið er ekki að tapa þessu heldur bara einhver Hannes Smárason. Tap FJ group er sagt hafa  verið um 700 milljónir á dag. Í því ljósi er ekki mikið þó Hannes greyið fái nokkra tugi milljóna fyrir að láta sig hverfa. Ég hefði samt alveg getað þegið þá peninga, en tapaði ekki 700 milljónum á dag og hefði aldrei getað það.

Ef mönnum leiðist blaðrið hér þá má benda á vefsetrið Áslaugar. Hún er nú byrjuð að teikna aftur og birtir á sínu bloggi (123.is/asben) nýjar Corel Draw myndir og vísur um allt og ekkert.

Veðrið fer nú sem betur fer smám saman batnandi. Það er ekkert smávegis sem horfið hefur af snjó undanfarna daga. Vonandi kemur ekki meira af slíkum ófögnuði í vetur.

Mér skilst að eitthvað sé að rofa til í visa-Schengen málum Bahamískra Íslandsfara og veitir ekki af. Bjarni er líka búinn að skoða íbúð sem honum stendur til boða að taka á leigu. Önnur minni er á sama stað sem Siggi Grétars hefur hugsanlega áhuga á. Hann er víst búinn að ráða sig í gæslustörf hjá Securitas.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband