192. - Jólastress, klór og Hannes

Nú er jólastress-söngurinn sem ég kalla svo byrjaður í fjölmiðlum.

Þessi söngur einnkennist af því að einhver sem segist vera alveg óstressaður fær til sín í viðtal annan jafnóstressaðan og svo hneykslast þeir/þær/þau alveg niður í rass á þeim sem sagt er að séu helteknir af jólastressi. Tala um hvað flestir aðrir séu mikið á þönum fyrir jólin og þurfi að gera allt og klára allt, baka tíu sortir, kaupa ótal gjafir, breyta og bæta, innrétta, mála og þrífa en bara ekki þau. Mér finnst þetta með afbrigðum lélegt fjölmiðlaefni. Ef fólk vill vera stressað fyrir jólin, má það bara vera það fyrir mér.

Ásgerður Jóna Flosadóttir er með fasta þætti á útvarpi Sögu og um daginn heyrði ég byrjunina á einum þætti hjá henni. Aðallega held ég að hún sé í þessum þáttum að útdeila alskyns dóti í auglýsingaskyni. Látum það vera. Í þessum þætti sem ég hlustaði á upphafið af var hún að segja frá einhverri bók sem nýlega væri komin út. Þessi bók væri tvímælalaust sú almerkasta sem skrifuð hefði verið og þyrfti nauðsynlega að vera til á hverju einasta heimili. Fleiri orð hafði hún um ótvíræða yfirburði þessarar bókar yfir aðrar slíkar og á endanum langaði mig auðvitað að vita hvaða bók þetta væri eiginlega. Ekki sagði hún nærri strax hvað bókin héti en að því kom þó að lokum eftir lofgerð langa og mikla.

Vonbrigði mín voru talsverð þegar í ljós koma að þarna var bara um enn eina sjálfshjálparbókina að ræða. Ég man ekki einusinni nafnið á henni. Ég veit ekki betur en sjálfshjálparbækur séu gefnar út í miklu magni á hverju ári bæði hér á Íslandi og annars staðar.

Sagt var frá því í fréttum áðan að klór hefði farið út í Varmá frá Sundlauginni í Laugaskarði. Einu sinni var vinsælt að veiða í Varmá, einkum í hyljunum við Reykjafoss. Sennilega er það ekki lengur stundað. Varmáin hefur orðið fyrir mörgun kárínum í tímans rás. Einu sinni voru boraðar háhitaholur þónokkrar inn við Reykjakot og þar í kring. Ein þeirra var eitt sinn látin blása beint í ána. Við það drapst allur fiskur í ánni a.m.k. niðurundir Velli. Ullarverksmiðjan skammt fyrir neðan Hamarinn sem byggð var um svipað leyti og holurnar hjá Reykjakoti voru boraðar, lagði stundum til skrautleg litarefni í ána og fleira ógott. Allt skólp frá Hveragerði fór líka að sjálfsögðu í hana og gerir kannski enn. Nútildags hlýtur það samt að vera hreinsað eitthvað fyrst.

"Undarleg ósköp að deyja." Þetta man ég að ég las einhverntíma í ljóðabók eftir Hannes Pétursson. Pétur Blöndal blaðamaður við Morgunblaðið, sem er allt annar Pétur Blöndal en alþingismaðurinn sem sífellt er að flækjast í sjónvörpunum okkar, er nú fyrir þessi jól að gefa út sína fyrstu bók. Það er viðtalsbók með viðtölum við skáld og rithöfunda. Ég hjó eftir því að Hannes Pétursson er þar meðal viðmælenda. Lítið hefur farið fyrir Hannesi Péturssyni undanfarin ár og eflaust er hann farinn að eldast nokkuð. Það breytir því þó ekki að endur fyrir löngu las ég af áhuga bæði ljóð og laust mál eftir hann. Einkum minnir mig að hann hafi skrifað í lausu máli um þjóðlegan fróðleik. Ef mig misminnir ekki er það eftirminnilegasta sem ég hef lesið um þá Reynistaðabræður eftir Hannes.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Gunnar Helgi Eysteinsson, 5.12.2007 kl. 19:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband