169. blogg

Eftir því sem best er vitað er aðeins einn maður sem fæðst hefur á Vegamótum á Snæfellsnesi. Það var Sæbjörn Jónsson sem fæddist þar 19. október 1938. Sæbjörn dó 7. ágúst 2006 og gerð hefur verið minningarsíða um hann á trompet.is. Áhugasömum skal bent á þá síðu.

Ástæðan fyrir veru foreldra hans að Vegamótum var sú að þau höfðu fyrir nokkru hafið veitingasölu þar. Það er eins og margir vita nákvæmlega þarna sem vegurinn skiptist og annars vegar er farið norður eftir og áleiðis til Stykkishólms. Áður fyrr var farið fyrir ofan Hjarðarfell, upp Seljafellið og yfir Kerlingarskarð. Nú orðið fara víst allir hina svokölluðu Vatnaleið. Hins vegar liggur leiðin áfram vestureftir Snæfellsnesinu sunnarverðu, gegnum Staðarsveit og síðan annaðhvort yfir Fróðárheiði til Ólafasvíkur eða fyrir framan Jökul um Breiðuvík framhjá Arnarstapa og Hellnum. Eftir að foreldrar Sæbjörns fluttust frá Vegamótum komst staðurinn í eigu Kaupfélags Stykkishólms og enn síðar í eigu Kaupfélags Borgfirðinga í Borgarnesi. KB var eigandinn þegar ég vann þarna, en eftir þann tíma skilst mér að staðurinn hafi aftur komist í einkaeigu.

Áhugavert væri að taka saman sögu staðarins. Þá mætti ennfremur segja frá öðrum byggingum á svæðinu. T.d. hvenær Sláturhúsið var reist, hvenær verslunin tók til starfa, hvenær Einar í Holti byggði sitt verkstæðishús. Ég man að hann byggði við það meðan ég var á Vegamótum. Hvenær íbúðarhús tilheyrandi versluninni og veitingahúsinu var tekið í notkun. Hvenær Sigurþór Hjörleifsson reisti sitt hús o.s.frv. Einnig mætti minnast á áhaldahús Vegagerðarinnar sem er þarna í nágrenninu og geta um aðrar framkvæmdir.

Fyrir nokkrum mánuðum sá ég á bókasafni Kópavogs bók sem Gluggasteinn heitir. Hún var gerð um íbúa eins hrepps eða svo á Vestfjörðum. Þetta er stór og vegleg bók með fjölmörgum myndum bæði gömlum og nýjum. Samt hef ég ekki trú á að hún höfði til mjög stórs hóps lesenda. Einkaaðili, sem ég man því miður ekki nafnið á, gaf bókina út.

Ég er ekki að segja að Vegamót á Snæfellsnesi þurfi á bók á borð við Gluggastein að halda, en sú bók sýndi mér, það sem ég vissi svosem áður, að bókaútgáfa er orðin svo ódýr og einföld í framkvæmd að með ólíkindum er. Myndvinnsla öll er einnig orðin miklu einfaldari en áður var og vel má hugsa sér að hægt væri tæknilega séð að gefa út litla bók um ekki stórfenglegra viðfangsefni en Vegamót á Snæfellsnesi. Dreifing og sala væri að sjálfsögðu talsverður biti, en ef stofnkostnaður er ekki mikill þá gerir minna til þó sú starfsemi verði í skötulíki.

Ég spurðu Gúgla sjálfan aðeins um þessa bók og svarið var þetta:

Bókin kom út í ár hjá bókaforlaginu Gýgjarsteini og bókina er hægt að  panta hjá Sverri Gíslasyni sjálfum í síma 4875631.

Einu sinni orti ég litla vísu sem er svona:

Bindindi ég herlegt hóf

og heilsu minnar gætti.

Föstudaginn níunda nóv,

við nikótínið hætti.

Síðan hef ég margsinnis fallið á sígarettubindindum og hafið þau jafnoft aftur. Vísan er ekkert sérstök nema fyrir það eitt að í dag er föstudagur og einnig níundi nóvember. Þessi dagsetning fer þó vafalaust einkum í sögubækur vegna þess að þennan dag, allmörgum árum eftir að ég hóf mitt nikótínbindindi, féll Berlínarmúrinn margfrægi.

Og þá er komið að fáeinum myndum.

Hér erum við bræðurnir ég og Björgvin. Þessi mynd er greinilega tekin undir stofuglugganum á nýja húsinu að Hveramörk 6. Ég er greinilega að trúa Björgvini fyrir einhverju. Kannski bara að benda honum á myndavélina sem beint er að okkur.

 

 

 

 

 

 

Þessi mynd er greinilega tekin löngu fyrr. Þarna er Björgvin smábarnið á myndinni. Vignir er sá sem heldur á honum og ég stend á hnjánum fyrir aftan. Fyrir aftan mig sést síðan framhjá Mel, yfir hverasvæðið og allt upp að Hamri.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á þessari mynd er það ég sem er í einskonar klemmu milli systra minna en ekki Vignir eins og í gær. Þessi mynd gæti vel hafa verið tekin um svipað leyti og á svipuðum stað og myndin af Vigni og stelpunum.

 

 

 

 

 

 

Hér er enn ein mynd úr seríunni um kettlinginn. Fyrir nokkrum dögum setti ég hér á bloggið myndir af Ingibjörgu og Áslaugu þar sem þær héldu á þessum sama kettlingi. Nú er röðin semsagt komin að mér. Ég var nefnilega atyrtur fyrir að vilja frekar birta myndir af öðrum en mér sjálfum á mínu eigin bloggi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Gunnar Helgi Eysteinsson, 10.11.2007 kl. 02:38

2 identicon

Það er alltaf að koma betur og betur í ljós eftir því sem þú birtir fleiri gamlar myndir af ykkur systkinunum hvað mamma ykkar var mikil snilldarprjónakona.Það væri snjallt að birta mynd af henni. 

                                         KV.

                                             Ein sem ekkert kann að prjóna

aslaugben 10.11.2007 kl. 02:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband