135. blogg

„And I am worth it," er stundum skeytt aftast í auglýsingar í sjónvarpinu þegar aulýstar eru til dæmis snyrtivörur.

Samt á að heita að þessar auglýsingar séu á íslensku. En látum það vera, íslenska eða ekki íslenska er ekki það sem ég er að hugsa um í þessu sambandi. Þó mér finnist að sjálfsögðu að auglýsingar í íslensku sjónvarpi eigi að vera á íslensku. Ég er kannski eitthvað skrýtinn, en þegar þessari setningu er bætt aftast í annars tiltölulega saklausa auglýsingu þá segir það mér bara eitt. Verðið á vörunni sem verið er að auglýsa er fáránlega hátt og þess vegna er notendum hennar bent á þessa afsökun.

Annars hefur oft verið sagt við mig að ég sé paranoid gagnvart öllum auglýsingum og nýjungum yfirleitt. Þessvegna er kannski ekkert að marka þetta.

Fer heimurinn batnandi eður ei? Þetta er eiginlega sú spurning sem öllu ræður. Ef það er rétt sem stundum er haldið fram, að allt sé á niðurleið er þá nokkur ástæða til að halda þessum fjára áfram? Ekki finnst mér það. Þegar litið er á ástand þriðja heimsins getur þó sett að mönnum efa. En er ekki bara alltaf verið að mála skrattann á vegginn? Eru ekki framfarir á öllum mögulegum sviðum um allan heim? Mér finnst það. Vitanlega er afturför á einhverjum sviðum en í heildina finnst mér miða í rétta átt. Auðvitað eru þau vandamál sem að heimsbyggðinni steðja gífurleg. En hafa þau ekki alltaf verið það?

Þegar ég var að alast upp um miðja síðustu öld hét verðbólgan dýrtíð og ógnaði svo sannarlega tilveru fólks sem þurfti að nota meira en helming tekna sinna, væri það ófaglært, til þess eins að kaupa sér matarbita í soðið. Fiskurinn var að vísu ódýr, en ekki var hægt að hafa hann á borðum alltaf og eingöngu. Landbúnaðarvörur voru rándýrar og nýlenduvörur sem svo voru kallaðar líka. Þegar maður veltir fyrir sér gamla tímanum finnst manni að allt hafi verið dýrt nema fiskurinn og kannski kartöflurnar líka. Aftur á móti var ekki búið að finna upp hvað grjónagrauturinn var góður og ódýr.

Lífið var samt skemmtilegt á þessum árum og þó brennivínsflaskan hafi ekki kostað nema 170 gamlar krónur þá var kaupið líka lágt. Sveitaböllin voru afburða skemmtileg og félagsheimilin stóðu fyrir böllum í blóðspreng til að hala inn eitthvað af peningum. Auðvitað var dýrt að byggja þessar hallir en þá eins og nú var unga fólkið tilbúið til að skemmta sér. Munurinn var bara sá að þá lentu tekjurnar ekki hjá þeim sem óðu í peningum fyrir.

Geysigrín er þetta með reyrinn eða var það Rei-inn. Merkilegast er þó hve fáir hlógu. Niðurstaðan af öllum þessum látum er líklega sú að vafamál er hvort Villi sé hæfur til þess að vera borgarstjóri. Kannski höfðu kóngsgerðarmennirnir í sjálfgræðisflokknum eitthvað fyrir sér þegar þeir vildu endilega frekar fá barbie-strákinn og seinna systur hans Gauja þjálfara sem borgarstjóraefni en gamla góða Villa þrátt fyrir allt hans streð.

Einhvern tíma kemur að því að stór og mikil útrásarfyrirætlun gengur ekki upp. Þegar það gerist er ég viss um að stærstu hluthafarnir í tapinu verða opinberir eða hálfopinberir aðilar. Þetta Geysigrín getur samt alveg tekist þó margt í sambandi við það leggist heldur illa í almenning. Auðvitað er markmiðið ekki að þetta mistakist en allt getur nú gerst. Þó yfirleitt séu ekki birtar fréttir um annað en ofsagróða þá veit ég að sumar hugmyndir manna um gróðavænleg fyrirtæki ganga alls ekki eftir.

Ragnar Axelsson ljósmyndari þurfti að auglýsa sig og fékk yfirlýsingu birta í mbl.is og kannski í Mogganum sjálfum líka. Ekki nóg með það heldur fékk hann þá Moggabloggsmenn til að reka einn bloggara af Moggablogginu og yfir á Vísisbloggið fyrir það eitt að vera kallaður Raxi. Já, mikill er máttur bloggsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband