133. blogg

Gíslína í Dal segist lesa bloggið mitt reglulega. Það er mikið hrós.

Alveg frá því að Bjarni sagði mér frá því einhverntíma fyrir allmörgum mánuðum síðan að hún væri með ólæknandi krabbamein hef ég náttúrlega dáðst að styrk hennar eins og aðrir. Svo uppgötvaði ég bloggið hennar og það hve opinská og einlæg hún er þar afvopnaði mig gersamlega. Ég gat bara ekkert sagt og get ekki enn. Auðvitað les ég bæði bloggin hennar reglulega, en hverjir gera það ekki? Núorðið held ég að öll innlegg fari á bæði bloggin, en þannig var það ekki.

Ég hef ekki litið reglulega í gestabókina mína hér á blogginu og engar hef ég séð tilkynningarnar um innlegg þar. Datt samt í hug að kíkja þangað áðan og hvað sé ég? Þrjár kjarnakonur hafa látið svo lítið að skrifa þar, flestar frá Snæfellsnesi. Þetta kom mér alveg á óvart, en hver er eiginlega tilgangurinn með þessari gestabók úr því ekki er látið vita þegar skrifað er í hana? Jú, reyndar getur maður klikkað beint á þá Moggabloggara sem skrifað hafa í gestabókina. Það er margt skrítið í Moggablogginu.

Reyndar man ég að ég las söguna hennar Sirrýar (sirrys.blog.is) um Jens og Co, en einhverra hluta vegna hætti ég þegar komnir voru svona rúmlega tuttugu kaflar. Sagan var nú samt skemmtilega skrifuð. Eiginlega ætti ég að athuga hvort hún er ekki komin öll upp núna. Nú líst mér á það. Ekki eru komnir nema fáeinir kaflar í viðbót og engin endir í sjónmáli. Eins og hún byrjaði nú glæsilega, 10 eða 15 kaflar í einni bunu og svo bara einn og einn smákafli endrum og sinnum.

Ég man vel eftir upphafi Surtseyjargossins. Ég átti heima í Reykjavík þá og fór strax og ég frétti af gosinu akandi á minni Wolkswagen bjöllu austur á Kambabrún. Þar blasti gosstrókurinn við og teygði sig þráðbeint og óralangt upp í loftið. Á leiðinni í bæinn aftur man ég að ég tók framúr einum 23 bílum og líklega hef ég ekki slegið það met enn. Mér dettur þetta oft í hug þegar verið er að tala um brjálæðinga í umferðinni. Svona hef ég nú verið á þessum tíma.

Ég man líka eftir upphafi Vestmanneyjagossins 23. janúar 1973. Þá átti ég heima á Vegamótum. Kvöldið áður hafði verið leitað að herflugvél á Faxaflóanum og frá Vegamótum sáust blys sem varpað hafði verið út við leitina. Ég held að leitin hafi engan árangur borið. Morguninn eftir kveikti ég á útvarpinu úti í búð klukkan svona rúmlega níu og þá var verið með beina lýsingu frá Þorlákshöfn og viðtöl við fólk. Ég hélt fyrst að verið væri að gera eitthvert at. Viðtöl við flóttafólk frá Vestmannaeyjum á bryggjunni í Þorlákshöfn, ekki hljómaði það nú sennilega.

Ég hef einu sinni á ævinni komið til Vestmannaeyja. Það var til að fara á þjóðhátíð og gerðist löngu fyrir gos. Minnisstæðast við þá ferð er hve fullur ég var og ég man að ég fór heim fyrr en ég hefði þurft. Ég held að engir aðrir hafi verið farnir að huga að heimferð þá svo enginn var troðningurinn. Gott ef ég var ekki bara einn í flugvélinni til Reykjavíkur (þ.e.a.s. fyrir utan áhöfnina) og að hún hafi verið að koma með síðbúna þjóðhátíðargesti til Vestmannaeyja.

Hefði ég ekki verið fluttur á Snæfellsnesið þegar gosið varð í Vestmannaeyjum er ekki ólíklegt að ég hefði farið þangað á vegum björgunarsveitarinnar í Hveragerði. Mig minnir að Bjössi bróðir hafi þá starfað af miklum krafti með sveitinni og mikið lið manna hafi lagt leið sína til eyja á þeirra vegum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Gestabókin hér á blogginu er sniðug uppfinning, þar geta þeir sem lesa reglulega látið vita af sér, það er óneitanlega góð tilfinning að hafa einhverja hugmynd um hver lesendahópurinn er. Hún er hins vegar lítið notuð. Sjálf vandist ég því í sveitinni að hún væri dregin upp þegar gestir þáðu kaffi, a.m.k. þeir sem komu sjaldan. Góður siður en að miklu leiti aflagður.

Kristjana Bjarnadóttir, 5.10.2007 kl. 20:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband