87. blogg

 

Með mjöl í augum

 

Þetta er undarlegt. Þegar ég vakna get ég ekki opnað augun. Allt er hulið myrkri. Þó veit ég og heyri að einhverjir eru komnir á stjá og það ætti að vera búið að kveikja ljós. Áður en mér vinnst ráðrúm til að gera mér verulegar áhyggjur út af skyndilegri blindu minni, ákveð ég að nudda hægra augað með hnúunum. Og viti menn, það síast birta inn fyrir augnalokið og eins fer með hitt augað.

Þetta var í Þorlákshöfn rétt fyrir jólin árið 1958. Í fréttum var það helst að ný ríkisstjórn var að taka við. Ég hafði ekki mjög mikinn áhuga fyrir fréttum á þessum árum, en það voru nú ekki ríkisstjórnarskipti á hverjum degi, svo ég held ég hljóti að muna þetta rétt.

Ég var semsagt ásamt fleiri Hvergerðingum við uppskipunarvinnu niðri í Þorlákshöfn. Við afgreiddum 3 skip í þessari lotu. Fyrst mjölskip, síðan timburskip og svo aftur mjölskip, sem við kláruðum þó ekki alveg að losa, því við vorum látnir hætta klukkan þrjú um nóttina, þó talsvert væri eftir af mjöli, því með því sparaðist að borga okkur klukkutíma langan matartíma í næturvinnu og stjórnendum Meitilsins þótti borga sig betur að senda skipið til Reykjavíkur, þó það kostaði að flytja þyrfti það sem eftir var af mjölinu með bílum til Þorlákshafnar. Það er semsagt ekkert nýtt að reynt sé að féfletta þá sem minnst mega sín.

Ég var bara 16 ára þegar þetta var og ég man að mér þótti talsverð upphefð í því að vera talinn fullgildur karlmaður við þessa vinnu og ég fékk laun í samræmi við það. Í Þorlákshöfn voru of fáir menn á lausu til að ráða við að afferma skipin svo það var sent herútboð í nærliggjandi hreppa. Siggi Árna hafði einhvern pata af því að ég kynni að vera fáanlegur til þessarar vinnu. Sá eini sem ég man eftir af öðrum Hvergerðingum í þessari uppskipunarvinnu var Atli Stefánsson bekkjarbróðir minn.

Uppskipunin var þrælavinna. Lest skipsins var smekkfull af fimmtíu kílóa sekkjum af mjöli. Á þessum árum var fóðurblöndunarstöð í Þorlákshöfn og mjölið áreiðanlega ætlað í fóðurblöndu. Svonefndar stroffur voru lagðar niður og 20 til 30 mjölsekkjum síðan staflað ofan á þær. Heisinu var síðan lyft á vörubílspall og þegar hæfilega mörg voru komin á hann var ekið upp í mjölskemmu.

Það var eftir uppskipunina úr fyrsta skipinu sem ég gat ekki opnað augun eftir að hafa vaknað. Við höfðum verið að vinna langt fram á nótt og ég farið strax að því loknu að sofa og þegar ræst var til vinnu morguninn eftir var mjölrykið í augunum á mér orðið samanklesst svo ég gat ekki opnað þau.

Næst á dagskránni var að losa timburskip sem komið var til hafnar með borðvið frá Rússlandi. Undarlegt þótti mér að sjá að greinilega höfðu þeir sem skipuðu timbrinu út reykt mikið og það greinilega dálítið óvenjulegar sígarettur því stubbarnir sem þarna voru út um allt sýndu að munnstykkið hafði verið ótrúlega langur pappahólkur holur að innan en með engu tóbaki. Sígaretturnar sem við krakkarnir vorum að fikta við að reykja á þessum árum voru hinsvegar úttroðnar af tóbaki. Camel var vinsælast og Cheserfield reyktu sumir. Það var síðan ekki fyrr en nokkru seinna sem filtersígarettur komu á markaðinn. Ég man að ég þurfti að hætta að reykja í nokkurn tíma til að geta skipt úr Camel í Viceroy.

Erfitt var að stafla mjölpokunum á stroffurnar, en ennþá erfiðara var að eiga við helvítis timbrið. Plankarnir voru mislangir, misbreiðir og misþykkir og þó tvær stroffur væru jafnan notaðar við að útbúa heisin vildi það öðru hvoru koma fyrir að kranastjórarnir áttu í erfiðleikum með að ná timburbúntunum upp um lestaropið. Oft var það vegna þess að langir plankar stóðu út úr búntunum. Þá gripu þeir gjarnan til þess fangaráðs að rykkja búntinu upp, svo plankinn sem útaf stóð brotnaði af. Þá var eins gott að vera ekki að flækjast fyrir þegar búturinn af plankanum datt niður í lestina aftur.

Þegar búið var að skipa upp svona helmingnum af timbrinu bauðst mér að vinna við að taka á móti timburbúntunum á pallinum á bílunum sem voru uppá bryggjunni. Auðvitað þáði ég það með þökkum því það var augljóslega mun auðveldari vinna. Þar unnum við Atli hreppstjórans svo við að taka á móti timburbúntum, losa þau og koma þeim fyrir á bílpöllunum.

Timburbúntin sveifluðust jafnan talsvert til, en með hægðinni var oftast hægt að láta þau stöðvast í sæmilegri stöðu og koma þeim þannig fyrir á pallinum. Ekki man ég hve mörg búnt voru sett á pallinn í hvert sinn, en líklega hafa þau verið svona tvö til þrjú. Það sem einkum þurfti að athuga var að vera alltaf sjálfur á réttum stað þegar búntin sveifluðust til. Ekki máttu þau lenda landmegin við mann.

Einu sinni lenti ég þó í því að timburbúnt sem sveiflaðist mikið lenti öfugu megin við mig og stefndi beint á mig þar sem ég stóð á pallbrúninni. Frekar en að lenda hugsanlega milli skips og bryggju tók ég undir mig mikið stökk og stökk um borð í skipið. Ég man að ég lenti á einhverju spýtnabraki og undraðist það mest hve langt var upp á bílpallinn.

Vinnan á bílpallinum var samt ekki tómt vesen og vandræði því þaðan sá ég einhver þau furðulegustu norðurljós sem ég hef séð um ævina. Þau voru rauð en ekki græn eins og algengast er. Þau voru heldur ekki útbreidd um allan himininn eins og venjuleg norðurljós eru oft, heldur voru þau einkum í suðrinu og sumir segja að þetta fyrirbrigði kallist suðurljós.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband