84. blogg

Mál málanna í dag er greinilega framlagning skattskráa.

Ég hef litla samúð með þeim Heimdellingum, sem berjast gegn því að skattskrár séu lagðar fram. Þetta hefur lengi tíðkast hér og engin ástæða er til að breyta því eingöngu breytinganna vegna.

Rökin um að þetta sé hvergi annars staðar gert bíta afar lítið á mig. Ef við Íslendingar höfum ekki efni á því að vera öðruvísi en aðrir, hverju í ósköpunum höfum við þá efni á.

Mér finnst þetta á margan hátt vera skylt umræðunni um launaleyndina. Þeir sem launaleyndina styðja halda því gjarnan fram að hún sé stjórntæki í fyrirtækjunum.

Ég sé ekki annað en vel sé hægt að setja lög um að bannað sé að banna fólki að segja frá launum sínum. Þar með yrðu ákvæði um slíkt í ráðningarsamningum ógild og fólk mætti segja frá launum sínum ef það kærði sig um.

Hvort fólk kærir sig um það er síðan mál sem hver verður að eiga við sjálfan sig og vel er hugsanlegt að fyrirtæki geti með tíð og tíma ráðið einhverju um það.

Þeim rökum að svona eða hinsegin sé þetta jafnan í útlöndum er líka óspart beitt þegar reynt er að telja fólki trú um að nauðsynlegt sé að selja bjór og léttvín í matvöruverslunum og að útlendingum þyki áfengi hér á landi mjög dýrt.

Mér finnst þessi rök ákaflega léttvæg og hef tilhneigingu til að láta þau hafa öfug áhrif á mig. Oft er til bóta að vera öðruvísi en aðrir.

Svo ég haldi áfram að agnúast út í allt og alla þá finnst mér það ansi lélegt hjá stjórnendum Akureyrarbæjar að ætla sér að banna ungu fólki frá 18 - 23 ára að tjalda á tjaldstæðum bæjarins. Þetta er augljós mismunun og ólíklegt að þeir komist upp með þetta.

Í mínum augum er þetta prinsippatriði og ég tel engu máli skipti þó miklar fjárhæðir séu í húfi. Annað hvort á að banna öllum að tjalda eða engum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband