2617 - Óttar sálfræðingur

Óttar Guðmundsson sálfræðingur er ekki svo vitlaus. Þetta segir hann t.d.:

Lýsingin gæti verið þessi: Manneskja á aldrinum 30-60 ára í krefjandi starfi. Vinnan verður með tímanum æ flóknari og kröfurnar um alls kyns tæknikunnáttu æ meiri. Fólk verður að tileinka sér tækninýjungar sem smám saman verða yfirþyrmandi. Kröfurnar í einkalífinu aukast að sama skapi. Skutla þarf heimilisfólki í alls konar tómstundastarf og sjá um heimilisstörf, eldamennsku, þvott og bílinn. Og ekki þarf að fjölyrða um það að samlíf hjóna versnar eftir því sem álagið eykst. Heimilið breytist smám saman í fyrirtæki sem verður að halda gangandi og sjá til þess að allir standist kröfur skólans, vinnunnar og einkalífsins. Þessu fylgja ótrúlegar nýjungar í samskiptatækni svo að allir séu alltaf ínáanlegir. Símarnir gelta stanslaust með nýjar kröfur, nýjar myndir og skilaboð. Hraðinn eykst.“

Kannski á þetta ekki síður við um þá sem teknir eru svolítið að eldast. Eins og ég t.d. Eiginlega er ég hættur með öllu að fylgjast með tækninýjungum. Snjallsímarnir eru orðnir alltof flóknir fyrir mig. Svo ég tali nú ekki um tölvurnar. Einu sinni voru armbandsúrin það líka. En ég komst framúr því á sínum tíma. Og það er fyrst núna fyrir fáeinum árum sem ég fór að líta til baka. Þetta er alveg rétt hjá Óttari. Kröfurnar eru alveg yfirgengilega miklar. Ætli maður verði bara ekki að fá sér róbot til þess að sjá um þetta allt saman. Það er ekki nóg að bílarnir fari að keyra sjálfir. Kannski sendir maður þá bara á verkstæðið ef þeir bila. Sennilega verða það samt bara þeir ríku sem hafa efni á svona lúxus.

Annars er það íslenskan og framtíð hennar sem á hug minn að mestu þessa dagana. „Hann sneri undan sér og braus.“ Sögðum við krakkarnir um miðja síðustu öld og þóttumst óstjórnlega fyndin. Kannski er íslenskan á þeirri leið að hætta að vera beygingamál og fer bara í þá átt að verða samsafn af orðum, eins og sum önnur tungumál. Einstök orð skipta engu máli. Íslenskan er ekki í neinni hættu þó menn noti slettur í óhófi. Ef þú notar slettur sem fáir skilja þá er það þitt vandamál en ekki þeirra sem lesa eða hlusta. Ætli það hafi ekki verið í Samvinnuskólanum um 1960 sem ég gerði mér grein fyrir því að orðaröð skiptir oft mjög miklu máli í tungumálum. Á ensku er t.d. sagt „He works hardly“ eða „ He hardly works“ Með öðrum orðum: setningafræði getur skipt miklu máli. Mér finnst hún samt snúast mest um kommur og punkta. Réttritun þekki ég aftur á móti út og inn.

Allt í einu mundi ég eftir því að ég hafði ætlað að blogga í morgun (laugardag) en svo gleymt því. Ætli það sé ekki best að henda þessu upp núna?

IMG 1594Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband