40. blogg

Þetta er blogg númer 40, sem er nú talsverður árangur út af fyrir sig. Að undanförnu hef ég skrifað óvenju oft. Nýtt blogg á hverjum degi.

Mér finnst ég yfirleitt vera þurrausinn eftir hvert blogg, en leggst svo eitthvað til þegar ég er búinn að ræsa Word-ið næsta dag. Ef ég kemst í þrot loka ég bara skjalinu og fer að gera eitthvað annað.

Ég var að hlusta á þá Guðmund Steingrímsson og Robert Marshall flytja Robinson-lagið sitt áðan. Mér fannst það fyndið, en á nýjan hátt. Það er ekki hægt að segja að þetta sé nein Baggalútsfyndni, en ef maður getur haft hemil á kjánahrollinum er eiginlega bara gaman að þessu.

Ég reikna með að stóra Jónínumálið fari að lognast útaf. Það er ekki líklegt að það dragi neinn dilk á eftir sér, allra síst svona rétt fyrir kosningar. Í mínum huga er aðeins eftir að upplýsa hver lak málinu í Helga Seljan eða Kastljósfólkið yfirleitt. Bæði Bjarni Benediktsson og Jónína koma til með að bíða talsverðan pólitískan skaða af þessu. Einkum þó Bjarni, en hann var á margan hátt ein helsta vonarstjarna Sjálfstæðisflokksins. Guðjón Ólafur og Guðrún Ögmundsdóttir munu heldur ekki græða á þessu máli. Þó þeir Kastljósmenn hafi e.t.v. stundum farið nokkuð geyst í þessu máli, þá held ég að það verði þeim til álitsauka í heild og sömuleiðis dragi þingmenn nokkurn lærdóm af því.

 

Þegar ég var unglingur voru rústir af gamalli þangmjölsverksmiðju skammt frá Álfafelli. Stór steypt laug til vatnssöfnunar var þar rétt hjá. Húsið hafði verið byggt efst í brekkunni við ána og þó engir veggir væru lengur að fullu uppistandandi var gaman að leika sér þar. Steyptar grunnplötur voru þarna margar og á mörgum hæðum og mikið pláss. Ofsafengnir bardagar með trésverðum og tilheyrandi voru háðir þar og í minningunni að minnsta kosti voru liðin fjölmenn sem tóku þátt í þeim.

Ég man ekki hvort bardagarnir þarna tengdust einhverjum öðrum átökum milli hópa í þorpinu. Ég held frekar að við höfum stundað þetta sem íþrótt en sem illsku. Mesta hættan sem af þessu stafaði var sú að hjöltun á sverðunum væru svo illa gerð að sverð andstæðingsins rynni óvart á hendi manns.

Fyrir neðan rústirnar af þangmjölsverksmiðjunni og dálítið niður með ánni var gamla rafstöðin. Hætt var að nota hana og búið að fjarlægja allan vélbúnað. Hússkrokkurinn var þó þarna ennþá og að sjálfsögðu stíflan. Oftast nær flæddi áin a.m.k. nokkra sentimetra yfir stífluna, sem var varla meira en svona 20 sentimetra breið. Það þótti manndómsmerki að þora að ösla yfir ána eftir stíflunni þegar vel flæddi yfir hana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband