2286 - Lánasjóðurinn

Horfði í kvöld á Kastljós. Þar var lýst viðskiptum Lánasjóðs Íslenskra Námsmanna við erfingja Steingríms Hermannssonar. Fátt eða ekkert kom mér á óvart í því máli. Opinberar stjórnsýslustofnanir hafa áratugum saman stolið og reynt að stela eignum og fjármunum af fólki. Að erfingjar Steingríms skuli reyna að verja sig hefur líklega komið stjórnvaldamafíunni á óvart. Sjálfur skrifaði ég talsvert um svokallað Ásgautsstaðamál fyrir u.þ.b. ári síðan. Lögfræðingar hafa reynt að hafa áhrif á það mál en stjórnsýslan stendur fast á móti. Ef mögulegt er með lagakrókum og hugsanlega aðstoð dómsvalds að styðja málflutning stjórnvalda er það gert. Þetta vita allir sem reynt hafa. Ef formaður stjórnmálaflokks lendir í svona löguðu, þá er það bara ágætt. Hugsanlega verður hlustað á hann.

Á margan hátt er Moggabloggið skárra en fésbókin. Líklega er Twitterinn (ef maður kemur einhverntíma til með að læra á hann) verri en fésbókin. Þar er gert ráð fyrir að aðallega séu settar inn myndir og myndbönd og ef settur er texti þá á hann að vera sem allra stystur. Já, ég er að tala um fésbókarfjandann. Auðvitað er hægt að setja þar lengri texta og ýmsir gera það, en þá fer kerfið í fýlu og heimtar aukaklikk ef farið er fram yfir fáeinar línur. Og svo held ég að ekki sjái það aðrir en fésbókarvinirnir, nema einhverjum þyki það nógu merkilegt til að séra það. En ég er sko enginn fésbókarfræðingur og skil alls ekki kerfið sem þar stjórnar öllu. Aftur á móti er ég orðinn sæmilega að mér í öllu sem að Moggablogginu snýr nema ég þori helst ekki að fikta að neinu ráði í útlitinu.

Mestallt mitt fréttavit er komið úr RUV-inu, Kjarnanum, Eyjunni og Jónasi Kristjánssyni. Dévaffið og mbl.is lít ég líka stundum á. Pappírspési er ég enginn og þarf aldrei (eða a.m.k. mjög sjaldan) að setja gömul dagblöð í pappírstunnuna. Þeim mun meira þarf ég að setja þar af mjólkurfernum, auglýsingabæklinum  og þessháttar.

Vel er hægt að halda því fram að ekkert skipti meira máli en svokölluð Ukrainudeila. Fátt er eins hættulegt heimsfriðnum og deilur Rússa og Bandaríkjamanna. Um það vitnar „kalda stríðið“ svonefnda. Þegar Sovétríkin liðu undir lok um 1990 lauk því stríði án þess að uppúr syði. Vesturveldin töldu sig hafa unnið það stríð, en Rússar voru niðurlægðir. Pútín er vinsæll núna á meðal Rússa og fátt bendir til að þeir muni hætta að skipta sér af hernaði aðskilnaðarsinna í austurhluta Ukrainu. Held satt að segja að Þjóðverjum sé betur treystandi til að varðveita heimsfriðinn en Bandaríkjamönnum.

Ekki er rétt að líkja Pútín við Hitler sáluga því í stað útþenslustefnunnar virðist mér að gerðir hans stjórninst aðallega af ótta við NATO. Vissulega er hann vinsæll heimafyrir en skoðanir hans virðast við fyrstu sýn alls ekki vera eins öfgafullar og Hitlers.

Svei mér ef Víglundarmálið er ekki að lognast útaf. Enda er svo stórt samsærismál ekki beinlínis trúverðugt. Samt eru það ýmsir sem trúa öllum samsæriskenningum sem þeir heyra. Hinsvegar gæti skattskjólsmálið orðið Bjarna Ben. skeinuhætt. Það trúir honum ekki nokkur maður þegar hann segir að sér komi það ekkert við. Ég hef sagt það áður og segi enn að ef t.d. Þjóðverjar geta fundið lagalega leið til að kaupa svonalagað þá ættu snillingarnir íslensku ekki að vera í vandræðum með það.

Eiginlega trúi ég því ekki fyrr en ég tek á því að utanríkisráðherra sé svo skyni skroppinn að leggja ESB-frumvarpið fram aftur. Líklegast er að bæði það frumvarp og kvótafrumvarpið sem beðið hefur verið eftir lengi verði svæfð og ekki lögð fram.

Væri ekki ráð að hafa ráðuneytin svona 30 eða fleiri. Reyndar væri ofrausn að hafa ráðherrana svo marga, því þeir ættu að fara létt með að stjórna nokkrum ráðuneytum hver. Ómar Ragnarsson vill stofna sérstakt ferðamálaráðuneyti og Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra og Jakob Frímann Magnússon hafa talað um sérstakt menningarráðuneyti. Stjórnmálamenn hafa verið uppteknir af þeirri firru undanfarið að sameina ráðuneyti. Tiltölulega auðvelt ætti að vera að láta slíkt ganga til baka. Vel væri hægt að stofna sérstakt efnahagsmálaráðuneyti, og landsbyggðarráðuneyti væri alveg upplagt. Þannig mætti lengi telja. Bandaríkjamenn voru a.m.k. til skamms tíma með ráðuneyti sem var skammstafað HEW og stóð sú skammstöfun fyrir health, education and welfare, en þeir eru nú svo vitlausir og elska þar að auki skammstafanir.

WP 20150113 11 38 37 ProSnjór.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Rétt hjá Guðmundi og fjölskyldu, að mótmæla svona lánastofnana-ráni.

Það er ólíðandi hvernig lánastofnanir á Íslandi hafa fengið, og fá enn, að rukka, ræna og svíkja allt og alla á ólöglegan og siðalindann hátt. Svo er þýfið bara selt á húsræningjamarkaði bankanna sýslumannastýrðu!

Hæstiréttur er toppurinn af spillingar-ísjakanum á Íslandi, og hefur stjórnað bæði upphafi og endi allra hvítflibbaglæpanna. Enda er Hæstiréttur Íslands bæði lagahöfundur, verjandi og dómari, með frúmúrað mafíuleyfið skattrænandi!

Ótrúleg stjórnsýslu-glæpastofnun!

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 10.2.2015 kl. 01:15

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

...siðblindan hátt...

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 10.2.2015 kl. 01:16

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

...frímúrað mafíuleyfið skattrænandi...

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 10.2.2015 kl. 01:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband