2169 - Ég vaknaði bara svona snemma

Ég vaknaði bara svona snemma þó sunnudagur sé. Sé að ég hef verið búinn að pikka eitthvað á tölvuna áður en ég fór að sofa í gærkvöldi. Get ekkert gert að því. (Tvöföld merking.) Best að láta það flakka áður en ég fer eitthvað að breyta því og ímynda mér að ég sé að bæta það.

Hrunið sem hér varð árið 2008 fór alveg bölvanlega með okkur. Alþingi, aldrei slíku vant, skipaði rannsóknarnefnd sem skilaði í fyllingu tímans skýrslu um málið sem öllum kom saman um að væri mjög góð. Í framhaldi af því var ákveðið að hafa hana að engu. Siðan hefur allt gengið á afturfótunum og það alþingi sem nú situr er síst betra en þau fyrri. 63 vitleysingar sem hver og eitt trúir því að sitt sjónarmið sé það eina rétta. Eiginlega er það bölvun okkar Íslendinga að þetta svokallaða alþingi skuli ráða svona miklu. Ný stjórnarskrá sem leiðréttir stærstu vitleysurnar í þeirri gömlu kemst örugglega aldrei á. Einveldi eða ég tala nú ekki um raunverulegt lýðræði væri sennilega miklu betra fyrir okkur, en þessi óskapnaður sem kallaður er þingbundið lýðræði. Forsetaræfillinn gerir bara illt verra, en bjargar þó alþingi frá stærstu vitleysunum.

Í fréttum þessa dagana er mikið tala um leynigögn úr Landsbanka Íslands. Fyrst þegar ég sá þetta sýndist mér að talað væri um leynigöng og síðan hef ég hvað eftir annað orðið fyrir þessu og velt því mikið fyrir mér hvert þessi leynigöng lægju. Þegar ég hef byrjað á þessum greinum og ég séð að um er að ræða gögn en ekki göng þá hefur áhugi minn dofnað. Allskonar gögn sem sanna hitt og þetta eru orðin svo algeng að maður tekur ekki eftir þeim og hefur lítinn áhuga. Leynigöng aftur á móti minna mann á sögurnar eftir Enid Blyton sem maður las í bernsku. Þar var allt fullt af leynigöngum en minna af gögnum.

Talað er um að sumu ungu fólki gangi afar illa að fóta sig í tilverunni. Þetta fólk bíður bara eftir því að komast á örorkubætur og vill ekki gera nokkurn skapaðan hlut. Vandamálin hrannast upp. Er ekki bara auðveldara að breyta svolítið tilverunni, en að breyta þessu fólki. Mér finnst öll, eða næstum öll, orkan fara í að breyta fólkinu og fá það til að samlagast tilverunni. Mér finnst tilveran einmitt stórgölluð. En þetta er flókið mál og allsekki hægt að leysa það í fljótheitum. Tölvur og net koma talsvert við sögu. Þegar fólk er farið að nota tölvuleiki og nethangs til þess eins að drepa tímann er kominn tími til að spyrna við fótum. Vinnuþrælkun fullorðna fólksins er mikil. Uppeldi barna er ábótavant. Þau fá gjarna sitt eigið herbergi svona sjö til átta ára og eftir það er foreldrunum að mestu sama um þau. Þar geta þau hangið í tölvunni endalaust, en skólanum og náminu sinna þau lítt. Svo er ætlast til að þau fari allt í einu að vinna. Í unglingavinnunni er þeim kennt að slæpast, eins og það sé einhver dyggð. Á vinnumarkaðnum ætlast þau til að öll vinna sé skemmtileg

Vertu drífandi.
Farðu snemma á fætur.
Farðu í bað fyrir allar aldir.
Sparkaðu í einhvern sem þarf að komast á fætur.
Passaðu bara að kreppa tærnar.
Farðu út með ruslið og sleiktu sólskinið um leið.
Gættu þess samt að brenna ekki á tungunni.
Gáðu hvort þú hefur gleymt að læsa bílnum.
Ef veðrið er gott má jafnvel sleppa sokkunum.
Bakkaðu ekki á köttinn.
Hafðu hátt í vinnunni, svo allir haldi að þú sért forsetinn.
Pússaðu símann upp úr lýsóli.
Fáðu þér hádegismat og farðu svo á fund.
Alveg sama hvaða helvítis fund.
En umfram allt að vera bara drífandi.

Undarlegt þetta með ljóðin.
Stundum þarf að lesa þau oft.
Til að fá sömu tilfinningu fyrir orðunum.
Og höfundurinn heldur að eigi að fá.
Auðvitað kann það að vera misskilningur.
Jafnvel rangur misskilningur.
En séu þau lesin nægilega oft.
Fær lesandinn svo mikinn leiða á þeim.
Að hann þykist fá þessa útjöskuðu tilfinningu.

IMG 0519Já, vorið er að koma.

IMG 0525Hver er sá veggur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband