2104 - Eyjabakkar og Kárahnjúkar Íslands

Kannski er Ásgautsstaðamálið að komast á einhverja hreyfingu núna. A.m.k. er fyrirhugaður fundur með lögfræðingnum og ég ætla að reyna að spilla honum ekki. Samt er ég ekki hættur að skrifa um málið og mun halda því áfram um sinn. Fyrsta færslan var 10. desember og síðan hef ég minnst á málið í hverju einasta bloggi.

Nú er ég búinn að flytja svotil allar mínar myndir á Moggablogginu í albúm sem hægt er að skoða, ef vilji er fyrir hendi. Varast skyldi þó að skoða mikið albúmin sem heita „ýmislegt 1-2-3-4 og 5“ því í þeim eru gjarnan fjölmargar myndir sem góðan tíma þarf til að skoða. Annars á að vera auðvelt að sjá hve margar myndir eru í hverju albúmi. Ég fer semsagt ekki ofan af því að Moggabloggið er með allra bestu bloggsvæðum landsins.

Minn örlitli skilningur á þjóðhagfræði, sem ég öðlaðist í fornöld á Bifröst hjá Herði Haraldssyni spretthlaupara segir mér að helsta vandamál íslensks efnahagslífs sé veikburða króna sem vantreyst er til allra hluta enda hefur saga hennar ekki verið beysin undanfarna áratugi. Ríkisstjórnin reynir samt að auka trú manna á þessum vonlausa gjaldmiðli með því að hrósa honum við hvert tækifæri og lýsa því yfir að hann sé okkar farseðill inn í framtíðina. Það er hennar helsti veikleiki. Altsvo ríkisstjórnarinnar. Margt gerir hún ágætlega en mærð hennar um íslensku krónuna er ekki til fyrirmyndar. Á endanum mun hún (krónan) draga okkur sem óð fluga væri í áttina að næstu kreppu.

Þegar ég eða réttara sagt við hjónin stóðum frammi fyrir því örlagaþrungna verkefni að skapa nýja hefð fyrir jólamat fjölskyldunnar einhvertíma á sjöunda áratugi síðustu aldar urðu nautalundir fyrir valinu. Mest var það auðvitað vegna þess að við gátum varla hugsað okkur fínni mat. Af einhverjum ástæðum höfðum við komist yfir nafnið á rándýru rauðvíni og það keyptum við að sjálfsögðu um hver jól, en aldrei endranær. Með þessu voru svo steiktar kartöfluflísar (mikið af þeim). Það var mitt hlutverk að steikja þessar kartöflur og fór gjarnan mestallur eftirmiðdagurinn á aðfangadag í það stórbrotna verkefni. Nautalundin var síðan skorin og steikt eftir kúnstarinnar reglum og þessi matur var aldrei á borðum í annan tíma en á aðfangadagskvöld. Sumum fannst svo uppþvotturinn eftir matinn taka óhemjulangan tíma en um það ætla ég ekki að fjalla.

Þau hátíðlegu loforð sem Samherjamenn gáfu Ísfiringum varðandi Gugguna þegar hún var keypt á sínum tíma stóð aldrei til að standa við. Framámenn fiskvinnslunnar vissu það jafnvel og yfirmenn Samherja að útilokað var að láta atvinnutæki sem þetta bera sig án þess að sleikja svolíkið rassgatið á útlendingum. Og það gerðu þeir.

Fimmtungur þjóðarinnar er í rauninni helmingur hennar miðað við þyngd. Þetta er víst alveg vísindalega útreiknað miðað við þyngdarstuðul og hvaðeina eftir því sem skýrt er frá í fréttatímaritinu óviðjafnalega sem Harmageddon er nefnt. (harmageddon.is) Þetta tímarit virðist hinsvegar vera einskonar útibú frá visir.is og þessvegna er hugsanlega ekki alveg að marka það sem þar er fullyrt.

Aðalgallinn við vinstri menn hér Ísa köldu landi er að þeir mótmæla öllum andskotanum. Líður beinlínis illa ef ekki er í gangi einhver undirskriftasöfnun eða mótmælastaða fyrirhuguð. Ef hraunavinaandstaðan hefði verið sú eina sem um þær mundir hefði verið í gangi gæti vel hafa náðst einhver árangur. Þar var um óþarfan yfirgang að ræða. Á sínum tíma mótmæltu menn hástöfum svokallaðri Eyjabakkavirkjun og vissu svo ekki fyrri til en þeir fengu Kárahnjúkastífluna í andlitið. Nú er reynt að æsa til verkfalla þó enginn vilji fara í verkfall og ríkisstjórnin með hjálp góðvina sinna í ASÍ stefni hraðbyri á nýja þjóðarsátt. Nú gætu menn hæglega flæmt Hönnu Birnu úr ráðherrastól og veikt þar með ríkisstjórnina töluvert. En eins og flest annað mun það væntanlega klúðrast.

IMG 5597Viðleguútbúnaður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband