2098 - Enn er ég lifandi

Ég er svolítið farinn að þreytast á Ásgautsstaðamálinu en ætla þó að halda áfram með umfjöllun um það. Í síðasta bloggi sagði ég frá tilraun Björgvins Guðmundssonar til að fá fram skipti á jörðinni. Það tókst ekki. Þar stóð sýslumaður Árnessýslu greinilega beinlínis gegn ákveðnum lagafyrirmælum og reyndi að slá ryki í augu erfingja jarðarinnar.

Með Ólafi og Simma hefur þjóðremban náð nýjum hæðum hér á landi. Hún var að vísu talsverð um það leyti sem Hriflu-Jónas var og hét, en nú held ég að það met hafi verið slegið. Þó þessi þjóð standi öllum öðrum þjóðum langtum framar að öllu leyti er samt ekki hægt að treysta henni til að ákveða neitt sjálf. Þar koma til ofurmenni eins og Ólafur og Simmi. Þeir fara létt með það. Án allra þjóðaratkvæðagreiðslna og þessháttar óþarfa. Að vísu er óhætt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslur um efni þar sem hægt er að sjá úrslitin fyrir. Stjórnarskránni er varasamt að hrófla við. Betra er að notast við þá gömlu og fá nógu fylgisspaka lögspekinga til að túlka hana eftir þörfum.

Enn er ég lifandi
og engu takmarki náð.
En orð byltast um orð
og ná stundum
með fingurgómunum
svo að segja til yfirborðsins.

Er ég þá vatnakarfi,
sem heldur að gáfnafar sitt lagist
við að komast á þurrt?

Eða er ég kannski ófreskjan
úr undirdjúpunum
sem allir óttast?

Kannski bara samviska heimsins,
sem lætur ekki ósögð orð
sem ógna tilverunni
stjórna lífi sínu.

Ómar Ragnarsson fylgist vel með stjórnmálum og hefur alltaf gert. Hann hefur líka verið handgenginn nokkrum aðalleikendum þar. Þess vegna er full ástæða til að lesa vandlega það sem hann hefur fram að færa um þau mál. Nýjasta útspil hans er eftirfarandi  blogg:  http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/1342954/?fb=1 Ég þarf varla að taka það fram að ég er næstum því að öllu leyti sammála Ómari þarna. Stundum finnst mér hann of einstrengingslegur í náttúruverndarmálum en þarna er hann það ekki. Hann leggur einfaldlega áherslu á samstöðuna og viljann til að ná henni. Í mínum huga hefur þjóðarsáttin svokallaða frá 1990 alltaf verið að mestu á kostnað verkalýðsins. Aðrir aðilar hennar hafi sloppið betur. Auðvitað eru ekki allir sammála mér um þetta. Þó held ég að sú skoðun hafi verið almenn hjá verkalýðsforystunni að svo væri. Samt sem áður græddi verkalýðurinn augljóslega á henni þegar fram í sótti. Hugsanlega allt þar til farið var að efna í Hrunið mikla í upphafi þessarar aldar.

Vissulega er jákvæðni af þessum toga varasöm. Þar sem ég er alls ekki fulltrúi auðvaldsins á þessum vettvangi kynnu sumir að halda að ég væri að mæla því bót með þessu. Svo er alls ekki. Ég er aðeins að leggja áherslu á að til að ná þjóðarsátt um kaup og kjör þurfa allir að starfa saman. Ekki má láta pólitískt dægurþras rugla sig í ríminu. Þjóðarsátt af því tagi sem náðist 1990 er eina ráðið til að hemja verðbólguna, sem er um það bil að læsa klóm sínum í okkur. Hvort það verður Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eða einhver annar sem verður forsætisráðherra þegar sá árangur næst skiptir engu máli. Ef raunverulegur vilji er fyrir því að láta krónuna vera gjaldmiðil okkar áfram er eitthvað af þessu tagi bráðnauðsynlegt ekki seinna en strax.

IMG 5464Tré ársins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband