2085 - Löggan drepur

Nú er kominn desember og óhætt að fara að velta því fyrir sér hvaða eftirmæli árið fær. Tvöþúsund og þrettán. Sennilega finnst mörgum að það sé talan þrettán sem stingur mest í augun. Þetta sé með öðrum orðum óhappaár. Í mínum augum lítur út fyrir að þetta verði árið sem Hruninu lauk og óhætt verður kannski að hætta að skrifa það með stórum staf héreftir. Kosningar voru á þessu merkisári, SDG-stjórn tók við af Jóhönnustjórninni og lögreglan byrjaði að drepa fólk. Gerðist eitthvað fleira? Ekki sem ég man eftir. A.m.k. ekki hér á Íslandi. Eitthvað hefur kannski gerst í útlandinu. Veit það bara ekki.

Einkennilega lítið er fjallað um Hraunbæjarmálið. Jú, lítilsháttar er minnst á það í helstu fjölmiðlum á netinu og kannski verður það eitthvað svolítið til umfjöllunar næstu daga, en ég er sammála Sigurði Þór um að þetta eru vissulega vatnaskil. Einu afsakanirnar sem hlustandi er á, er að þetta hafi verið alveg óvart, sem þeir drápu manninn (er sammála því að nauðsynlegt hafi verið að handsama hann) eða þeir hafi haft alveg pottþétta ástæðu til að ætla að hann mundi granda einhverjum. Það hlýtur alltaf að vera æðsta hlutverk lögreglunnar að vernda mannslíf.

Þetta með millistéttina var nokkuð snjallt hjá SDG. Flestir vilja (og þykjast) auðvitað tilheyra henni. Fáir eða engir vilja tilheyra hástéttinni sem mergsýgur almenning eða lágstéttinni sem lepur dauðann úr skel. Lífskjörin gætu verið mun betri hér á Íslandi. Skandinavíska módelið er skárra en það bandaríska, segir Jón Baldvin sjálfur. Annars keppast allir sjálfskipaðir málsvarar millistéttarinnar við að afneita honum af því hann var í graðara lagi og smyglaði meira að segja kjöti til landsins eins og aðrir.

Nú er veturinn að koma fyrir alvöru. Dimmt á morgnana og allt orðið hvítt. Vona bara að snjórinn verði ekki mjög mikill. Aðallega er það vegna þess að krapið og slabbið verður þá svo mikið þegar hann loksins fer.

Vinsælt er að skrifa allskyns ímyndaðar fréttir á netið. Má þar nefna baggalút, grefilinn og sannleikann. Stundum eru þessar fréttir fyndnar og baggalútur er einna bestur þeirra. Verst er að stundum eru grínfréttirnar svo lélegar að menn trúa þeim. Er alveg viss um að ég gleymi einhverjum enda leita ég sjaldan að slíku og læt mér yfirleitt nægja mbl.is og eyjuna. Ef ég vil endilega fá sem flestar fréttir bæti ég stundum blogggáttinni við. DV.is kíki ég stundum á ef ég vil fá fréttir matreiddar með dv-hætti og sem flestar (og lélegastar) þýðingar.

Auðvitað fer ég líka oft á fésbókina eins og flestir aðrir. Þar er mikið skrifað og sumt ekki alvitlaust. Tilbúnir og upplognir statusar eru samt algengir þar. Áskoranir um að gera slíkt einnig. Leiðist þessháttar.

IMG 4939Lögreglan á Ítalíu.


mbl.is „Lögreglan gerði allt sem hún gat“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband