1881 - Feneyjanefnd o.fl.

Minnir að það hafi verið Svarthöfði í DV sem stakk uppá því að Samfylkingin og Björt Framtíð „væru að laga sig að lýðskruminu“ með því að vilja hætta að rífast. Það er alveg rétt hjá honum. Það er eðli krata að vera hægrisinnaðir. Alveg einsog það er eðli komma og annarra sem eru langt til vinstri að láta alltaf eins og bestíur útí félaga sína. Þannig er það á Íslandi og hefur löngum verið. Framsóknarmönnum er að mörgu leyti vorkunn. Helst vilja þeir bæði éta kökuna og eiga hana. Sjálfstæðismenn vilja bara græða á daginn og grilla á kvöldin. Ef marka má skoðanakannanir hafa hægri menn unnið áróðursstríðið og kosningarnar virðast þar með orðnar óþarfar. Kannski væri best að fresta þeim. Sennilega þarf fólk samt að smakka á LÍÚ-kökunni til að finna hve vond hún er.

Margir segja að „fólk sé fífl“ og hafi gullfiskaminni. Oftast er það vegna þess að það kýs ekki rétt samkvæmt áliti þess sem því heldur fram. Það er jafnan auðvelt að finna dæmi sem styðja slíka skoðun. Hjarðhegðun getur verið áberandi í mörgu. Samt sem áður er ég alveg mótfallinn því að segja að „fólk sé fífl“. Þó þau séu auðvitað til. Þeir sem mikinn áhuga hafa á stjórnmálum finnnst oft ergilegt hve lítinn áhuga fólk, sem sannarlega virðist með fullu viti,  hefur á þvílíku. Þátttaka í kosningum hér á landi er samt mikil. Þó fólk kjósi ekki eins og viðkomandi líkar og láti það, sem hann álítur fagurgala og fals eitt, hafa áhrif á sig og kjósi samt, er algjör óþarfi að láta svona. Flestir sjá auðveldlega í gegnum lygina og kjósa eins og þeim sýnist réttast. Segja jafnvel ekki frá því hvernig þeir kjósa. Það er skynsamlegt. Þannig tryggir fólk sér einhvern frið fyrir þeim sem vilja hafa áhrif á það. Fjarri fer því að stjórnmál séu allt, þó auðvitað séu þau mikilvæg.

Það hverja meðhöndlun stjórnarskrármálið fær á endanum hjá alþingi mun hafa gífurleg áhrif á alþingiskosningarnar í vor. Þingmenn eru í miklum vanda og ég vorkenni þeim það ekki. Þetta vildu þeir. Þó sú ákvörðun sem á endanum verður tekin þar muni e.t.v. ekki hafa stórkostleg áhrif á niðustöður skoðanakannana undireins, mun hún ráða miklu um hvernig straumarnir liggja fram að kosningum. Ég ætla ekkert að spá um hvernig sú glíma fer, enda sér það enginn fyrir með neinni vissu.

Ég ætlaði víst að skrifa um stjórarskrármálið núna en hef lítið komist til þess. Ég er samt á öðru máli en svokölluð Feneyjanefnd (sem enginn kannaðist við fyrir hálfum mánuði) varðandi breytingar. Hún virðist óttast mjög þjóðaratkvæðagreiðslur, en það geri ég ekki. Spáir líka allskyns vanræðum varðandi forsetann, sem ég vil þrátt fyrir allt að verði áfram þjóðkjörinn.

Dauðhald það sem haldið er í krónuræfilinn tryggir stjórnvöldum áframhaldandi völd þrátt fyrir afar lélega hagstjórn. Yrði skipt um gjaldmiðil hér drægi mjög úr áhrifum stjórnvalda á hagstjórn því ekki væri hægt að breiða yfir mistökin þar með gengisfellingum og aukinni verðbólgu. Samningarnir við hjúkrunarkonurnar voru ágætir, en auka hættuna á að stjórnvöld missi alveg tökin á verðbólgunni.

Magni og Harpa.IMG 2541


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband