1873 - Umræðustjórnmál

Umræðustjórnmál, sagði Ingibjörg Sólrún einhverntíma. Oft er hægt að ræða sig niður á lausn í málum. Nei, ég er ekki að tala um Icesave. Varðandi makríl- og hvalveiðar blasir við að vel er hægt að tala sig niður á lausn og hún finnst áreiðanlega á endanum. Ef tveir deila er auðvitað möguleiki að annar þeirra bíti sig svo fastan í eitthvað sem hann álítur grundvallaratriði að engin leið sé að semja um neitt. Gjaldmiðilsmál snerta mjög marga. Jafnvel alla. Líklegt er samt að lausn finnist að lokum í því máli. Einhvers staðar sá ég fullyrt að þeir sem yngri eru vilji fremur krónuna en þeir sem eldri eru. Það finnst mér bara benda til að málið sé allsekki fullrætt.

Svo virðist mér að sumum málum sé einungis hægt að svara með já-i eða nei-i. Ef endilega þarf að skera úr slíkum málum er máski nauðsynlegt að hafa um þau þjóðaratkvæðagreiðslu. Hermálið var t.d. dálítið dæmigert hvað þetta snerti. Annað hvort voru menn hlynntir því að hafa herinn eða mótfallnir því. Að lokum tóku Bandaríkjamenn sjálfir af skarið og fóru. Þannig sluppu stjórnvöld við að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu og auðvitað hefði skipt miklu hvenær hún hefði verið haldin og hver spurningin hefði verið.

Líkt er því farið með ESB-aðild. Aðild eða ekki getur skipt þjóðinni í tvo flokka og mjög ólíklegt er annað en úr því máli verði skorið með þjóðaratkvæðagreiðslu. Að greiða atkvæði um það áður en þingkosningarnar fara fram í apríl er samt mjög óskynsamlegt.

Ólafur Ragnar Grímsson er nú á hátindi ferils síns. Vel má reikna með að hann láti til sín taka eftir þingkosningarnar í vor. Ef breytingar á stjórnarskránni varðandi hlutverk hans verða samþykktar á þinginu gæti það verið í síðasta sinn sem forseti hefur áhrif á stjórnarmyndun hér á Íslandi. Ólafur hefur reyndar haldið því fram að ef nýja stjórnarskráin verði samþykkt muni völd forsetans aukast. Einkum breytast þau og skýrast en sumir geta eflaust talið að þau aukist en varðandi stjórnarmyndun hverfa þau að mestu.

Þessi sífelldu fésbókarklikk eru dálítið þreytandi. Auk þess veit maður aldrei hverjar afleiðingarnar verða. Pósthólfið mitt er við það að verða ónothæft vegna sífellra árása frá fésbókinni. Kannski er ég ekki nógu duglegur að afþakka allan fjárann á réttan hátt. Segi bara svona. Alvöru bréf sem ekki koma frá einhverjum róbotum eru alltaf velkomin. Sama er að segja um athugasemdir við bloggið mitt. Þær eru næstum aldrei of margar núorðið. Það getur dregist að ég svari bréfum. En svara samt. Missi af mörgu, en veit þó af flestu svona eftirá.

Sálgreining mín á fólki eftir því hvernig það kemur mér fyrir sjónir á netinu er kannski oftast röng. Samt er hegðun manna þar mikilvægari en margur hyggur. Netið er orðið jafnmikilvægt fyrir marga og rafmagnið var áður.

Ég get ekki að því gert að ég les með athygli bloggin hennar Vilborgar Davíðsdóttur á blogspot þessa dagana. Ég las líka síðustu bloggin hennar Gíslínu í Dal og man þau ennþá. Og svo dó einn bekkjarbróðir minn um daginn en ég hef áreiðanlega misst af jarðarförinni því tölvupósthólfið mitt var svo fullt af bévítans drasli. Flestum finnst dauðinn svo dapurlegur að þeir forðast eins og þeir geta að tala um hann. Það er afstaða sem ekki hjálpar. Ég mun hafa verið um 13 ára eða yngri þegar ég kynntist dauðanum fyrst en tölum ekki um það

IMG 2467Bíll.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband