1804 - Kosningar næsta vor og breytt fjölmiðlun

Skemmtilegt hefði verið að vita allt sem maður veit núna, þegar maður var ungur. En engu er hægt að ráða um það. Mér fannst landsfeðurnir alltaf fremur gáfaðir. Nú veit ég að svo var alls ekki. Þeir þóttust bara vera það. Gáfurnar voru allt annars staðar. Kannski hvergi.

Ætli þær séu ekki í tölvunum núna? Man að ég heillaðist mjög af tölvum þegar mér hlotnaðist sú gæfa að byrja að skilja þær. Að sjálfsögðu skil ég þær ekki almennilega ennþá en hef samt pínulitla hugmynd um hvernig þær vinna. Langsennilegast er að gáfurnar séu þar. Gáfur eru samt ekkert takmark í sjálfu sér. Sambandið við aðra er það sem öllu máli skiptir. Ef maður getur ekki gert sér neina grein fyrir því hvernig koma á fram við aðra, er allt unnið fyrir gýg.

Fjölmiðlar eru það afl sem hreyfir hlutina. Hvernig er það afl þá upp byggt? Það verður bara til og engin leið er að segja til um það fyrirfram hverslags fjölmiðlun er áhrifaríkust. Um það leyti sem margir (eða jafnvel flestir) gera sér grein fyrir áhrifamætti tiltekinnar fjölmiðlunar er hún orðin úrelt. Þetta er mjög greinilegt með sjónvarpið núna. Fésbókin er miklu betri. Hætt er samt við að hún verði fljótt úrelt. Stóri gallinn við hana er að hún er eign ákveðinna aðila. Fjölmiðlun sem ná á langt þarf að vera mátulega flókin og erfið en umfram allt eign allra.

Bloggið hentar mér sem fjölmiðlun, en er þó líklega ekki það sem koma skal. Einhverskonar hreyfimyndir (ekki þó youtube) er sennilega það sem heimurinn bíður eftir núna. Myndmálið er alþjóðlegt. Virðir engin landamæri. Með nægilegri þjálfun og í framtíðinni má eflaust segja allt með því.

Já, ég býst við að kjósa Píratapartíið í næstu kosningum. Ekki er það bara útaf því að Birgitta er þar framarlega í flokki og heldur ekki vegna þess að vel gæti ég trúað að unga fólkið hópist þangað, heldur er það vegna þess að áherslur þess flokks um upplýsingaskyldu og opna stjórnsýslu hugnast mér bærilega. Björt framtíð kemur einnig til greina en fjórflokkurinn varla. Ef Ólafur Ragnar Grímsson gengur í Bjarta framtíð eða lýsir yfir stuðningi við hana steinhætti ég samt við að kjósa þann flokk.

IMG 1795Hér má fá sér að drekka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband