1796 - Ruslatunnuveður

„Það er hálfgert ruslatunnuveður núna.“

„Hvað er ruslatunnuveður?“

„Það er þegar ruslatunnurnar fara á kreik og björgunarsveitarmenn hlaupa á eftir þeim. Venjulega fara þær bara á hliðina.“

Í aðra röndina má auðvitað segja að þessi ofurþéttu og miklu bloggskrif mín um daginn og veginn séu einskonar dagbókarskrif. Samt sem áður er ekki hægt að segja að þau séu persónuleg. T.d. get ég þess aldrei hvora löppina ég fer með framúr rúminu á undan. Þeir sem þekkja mig vel geta þó eflaust lesið margt í bloggskrifin sem ekki er beinlínis sagt þar.

Mér finnst langskemmtilegast að skrifa svona bara um hitt og þetta og einskorða mig ekki við neitt ákveðið. Margir gera það þó og ná góðum árangri. Mér finnst samt árangurinn fremur góður hjá mér og mæli hann aðallega í fjölda og lengd bloggskrifa, svo og að sjálfsögðu í gestum og innlitum. Nenni ekki að leggjast í frekari rannsóknir á ip-tölum og þessháttar.

Með því að hafa nokkra tugi bréfskáka í gangi á hverjum tíma get ég betur drepið tímann með því að eyða honum, þegar þess þarf, í ákveðna leiki.

Öll hernaðarafskipti mín snúast um skák. Mér er sagt að nöfn kallanna á borðinu séu komin úr hermáli. Gegn mönnum hef ég snúist á taflborðinu og gert þeim allan þann miska sem ég er fær um. Tilraunarinnar virði er að reyna að færa hernaðarmorðin í lítinn leik. Vinsældir leiksins hafa með tímanum orðið mjög miklar og heita má að hann sé stundaður eftir sömu reglum um allan heim. Það er mikill kostur.

Nú er ekki nema rúmur mánuður þangað til daginn fer að lengja aftur og hægt er láta sig hlakka til vorsins. Þetta eru svokölluð pollýönnu-fræði sem eiga vel við þegar myrkrið er sem svartast. Man að ég horfði lengi á stjörnuhimininn úr heita pottinum uppi í Hvalfirði um daginn. Engin gervitungl sá ég samt og fá stjörnuhröp. Norðurljós (eða stjörnuljós) voru heldur engin.

Varðandi kyndilinn minn vil ég bara segja að ég hef aldrei skilið hvers vegna það er betra að kaupa „ipad mini“ á sextíu þúsund en „kindle fire“ á innan við tvöhundruð dollara. Auðvitað er ég svolítið tornæmur og veit líka að það vantar alveg myndavél í kyndilinn.

IMG 1752Ber.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband