1779 - Veiðar

Einu sinni fór ég á skytterí. Þá var ég útibússtjóri í kaupfélaginu í Hveragerði. Ég var nýbúinn að verða mér úti um 22 calibera riffil. Gott ef ég keypti hann ekki alveg nýjan og ætlaði svo sannarlega að sanna málsháttinn um að ný vopn bíti best. Síðan fórum við uppí Reykjafjall. Ætli ég hafi ekki platað Jóa á Grund eða Atla Stefáns með mér. Gamlan haglabyssufrethólk hafði honum tekist að komast yfir. Við kunnum svosem lítið fyrir okkur í veiðimennsku og þegar mér hafði tekist að særa rjúpuræfil og náð henni hafði ég engin ráð önnur til að drepa greyið en að setja hana framan við hlaupið á rifflinum og hleypa af. Jú, jú. Hausinn fór af henni og hún drapst, en ég missti áhugann á rjúpnaveiðum og eiginlega á öllum veiðum við þetta.

Sjálfstæðismenn eru ævareiðir yfir því að Bónusfeðgar skuli (með hjálp einhverra) vera að koma undir sig fótunum á ný. Auðvitað er það ekki eðlilegt að Jói í Bónus skuli vera farinn af stað aftur með „Iceland“-verslanir sínar af miklum krafti og bjóði lágt verð (kannski það lægsta á landinu) en sú venja fólks að láta stjórnmálaskoðanir sínar ráða hvar verslað sé, hélt ég að hefði dáið út með kaupfélögunum. Sú saga er e.t.v. sönn sem gekk mjög á milli manna í eina tíð um kaupfélagstrúarmanninn sem sagðist frekar keyra bílinn sinn bensínlausan en fara að setja eitthvert helvítis Shell-bensín á hann.

Oft ratast kjöftugum satt á munn. Trúi því eins og nýju neti sem Jónas Kristjánsson segir um feitt fólk. Því er alls ekki sjálfrátt. Gott ef fíknir af ýmsu tagi stjórna ekki lífi flestra. Sjálfur stjórnast ég líklega af einhvers konar skriffíkn og tekst að halda sykurfíkninni nokkurn vegin í skefjum. Ef dæma skal eftir skrifum Jónasar stjórnast hann af hestafíkn. Svo getur vel verið að hestarnir (þeir sem látnir eru lifa) stjórnist af eigin fíknum. Hvar endar þetta eiginlega?

Sagt er að frjálslyndir vinstrimenn stjórni hinni pólitísku umræðu bæði hér á landi og annars staðar. Sé svo þá er það fyrst og fremst aumingjaskap stjórnlyndra hægrimann um kenna. Það er fullkomlega eðlilegt að þeir sem hafa mest að segja og gera það best stjórni umræðunni. Það er að vísu næstum alltaf til bölvunar þegar peningaöflin fara að ráðskast með hina margumræddu umræðuhefð og við sem höfum eitthvað að segja ættum að taka höndum saman og reyna að krækja í þá peninga sem í boði eru. Ég hugsa að við gætum öll skrifað lengri greinar og merkilegri ef við fengjum sæmilega borgað fyrir það.

Hætti að kaupa lottómiða þegar ég komst að því að það voru meiri líkur til að ég yrði fyrir bíl á leiðinni til að kaupa hann en að fá hæsta vinning. Held að það sé frekar erfitt að finna Moggabloggið orðið (þ.e.a.s. sé það ekki í bookmarks eða eitthvað). Þarf að athuga með að linka kannski í fréttir hjá þeim. Verst hvað ég les þær sjaldan. Facebook virðist bjarga ýmsu hvað þetta snertir. Einu sinni var það blogg-gáttin, kannski MySpace. Allt er breytingum undirorpið.

IMG 1680Eldstæði?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband