1759 - Áhrifamiklir bloggarar (framhald)

Um daginn var ég að telja upp bloggara sem hafa haft talsvert mikil áhrif á mig á bloggferlinum. Tveir eru þeir sem ég hef alveg gleymt að telja upp þar, en þeir eru báðir mjög góðir bloggarar og hafa haft mikil áhrif á mig. Það eru Jens Guð og Hrannar Baldursson.

Jens Guð nennir þessu varla en fer oft á einhver myndasöfn og semur fyndinn texta við myndirnar sem hann finnur þar. Hann er alltof sleipur til að láta hanka sig á vafasömum skoðunum þó ekki fari neitt á milli mála hverjar þær eru.

Hrannar Baldursson er oft mjög heimspekilegur og forðast ekki umræður um trúmál eins og margir (þar á meðal ég) gera. Sérfróður mjög er hann um kvikmyndir, en hefur áhuga á mörgu öðru.

Auðvitað er líka oft afskaplega fróðlegt að lesa bloggið hans Ómars Ragnarssonar, en það er aðeins á fárra færi að fylgjast með öllu sem hann tekur sér fyrir hendur.

Myndadeilingar og þessháttar á fésbókinni koma á margan hátt í staðinn fyrir dagblöðin sem ég er alveg hættur að lesa. Hægt er að skruna þar eða skrolla, eins margir segja, svotil endalaust án þess að sjái högg á vatni, þ.e.a.s. ef maður á nógu marga fésbókarvini. Held ég. Annars skil ég fésbókina ekkert sérlega vel og þannig á það víst að vera.

Svo má kíkja á blogg-gáttina og kannski eitthvað annað á netinu, en aðalgallinn er sá að tíminn flýgur frá manni. Kannski er bara betra að gera eitthvað að gagni.

Þegar maður er orðinn (eða alveg að verða) sjötugur og engin not fyrir mann lengur á vinnumarkaðnum og maður svosem ekki fær um nærri allt sem maður gat auðveldlega áður fyrr, þá er ágætt að stússast í kringum tölvuna. Jafnvel að blogga. Bara ekki of mikið. Þá verður maður leiðinlegur.

Því skyldi ég ekki Moggabloggast eins og enginn sé morgundagurinn. Er það eitthvert statement hvar maður bloggar. Ég hef ekkert undan þjónustunni hér að kvarta. Hef einmitt undanfarið verið að finna ýmsa sem hófu sinn bloggferil hér en eru komnir eitthvert annað. Mér er alveg sama. Ef fólk heldur mig íhaldsmann bara af því ég blogga hér gerir það ekkert til.

IMG 1513Ævintýraveröld. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir mig ;)

Hrannar Baldursson, 12.9.2012 kl. 14:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband