1754 - Þjóðaratkvæðagreiðslan í október o.fl.

Skottsala (úr bílskottum) skilst mér að hafi farið fram í Hamraborginni um helgina. Stóri gallinn við skottsöluna eru líkindi orðsins við skortsölu og þar með fær fólk illan bifur á þessari íþróttagrein. Algerlega að ófyrirsynju.

Það er vandlifað í henni verslu. Einhver hvíslaði því að mér um daginn að hveiti væri afskaplega óhollt. (Vissi af þessu með sykurinn) Þá má ekki nota hveiti í bakstur og ekki heilhveiti heldur býst ég við. Spelt má víst nota ennþá a.m.k. Svo er hægt að reyna að ná gluteninu úr hveitinu, hvernig sem það er gert. Hef annars ekki hugmynd um hvað þetta gluten er. Ætli nokkur viti það? Sagt er að Haraldur Á. Sigurðsson leikari hafi einhverntíma sagt: „Það er bara ekkert gaman að lifa lengur, allt sem eitthvað er varið í, er annaðhvort ósiðlegt eða fitandi.“

Þegar ég verð andvaka á nóttunum sé ég hlutina í afar skýru ljósi og get leyst næstum öll vandamál. Svo fer svefntaflan að virka og þá verð ég að fara að sofa. Af hverju er ég eiginlega að þessu? Skil það bara ekki. Eiginlega er skemmtilegra að flakka fram og aftur um vefinn en að standa í þessu skriferíi. Samt er ég að eyða tímanum í þessa vitleysu.

Það virðist vera orðin einhver mission hjá Jónasi Kristjánssyni og Jens Guði að tala illa um Travel-inn. Fleiri gera það líka svo líklega er eitthvað til í þessu. Get samt ekki að því gert að ég er farinn að vorkenna fyrirtækinu.

Að einu leyti er þjóðaratkvæðagreiðslan sem fara á fram í október næstkomandi ólík þeim sem verið hafa um icesave að undanförnu. Þær síðarnefndu hafa verið í nokkurri andstöðu við meirihluta Alþingis og að frumkvæði forsetans. Sú sem nú er fyrirhuguð er það ekki. Segja má að með henni (að því leyti sem hún snýst um stjórnmál dagsins) sé Alþingi, eða sá meirihluti þess sem myndar ríkisstjórn og stjórnlagaráðið (sem komst að samhljóða niðurstöðu), að leita samþykkis þjóðarinnar á gerðum sínum. Þeir sem á móti kunna að vera eru að sumu leyti settir í slæma aðstöðu. Mæti þeir ekki eru þeir í raun að fela umboð sitt þeim sem það gera. Auðvitað er eðlilegra að mæta og greiða þá atkvæði gegn tillögu stjórnlagaráðs ef hugurinn stendur til þess.

Stóri gallinn við boðaða þjóðaratkvæðagreiðslu er að Alþingi getur samþykkt hvað sem því sýnist varðandi stjórnarskrá (óháð úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar) og síðan verður að samþykkja það óbreytt á næsta þingi á eftir ef það á að taka gildi sem stjórnarskrárbreyting. Þannig er hægt að halda því fram að þýðing þessarar atkvæðagreiðsla sé umdeilanleg og skipti e.t.v. litlu máli, en næstu þingkosningar öllu.

Hvað sem því líður er sú gjörð að greiða ekki atkvæði í október n.k. samsvarandi því að færa þeim sem það gera vald sitt. Hvort það vald er mikið eða lítið er svo hægt að deila um og undir hverjum og einum komið að skilgreina það og þar að auki getur þetta vald verið breytingum háð.

IMG 1442Geturðu hoppað hærra en húsið? Já, en húsið getur ekkert hoppað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband