1728 - Að vinna með því að tapa

Tvíliðaleikur í badminton eða hniti eins og þessi íþróttagrein á víst að heita á íslensku hefur hingað til ekki vakið mikla athygli. Riðlakeppni af því tagi sem notuð er í þessari grein á ólympíuleikunum hefur bæði kosti og galla. Að lið vilji komast hjá því að vinna er einn af göllunum. Að missa ekki af  hugsanlegum sigri þrátt fyrir eitt tap er meðal kostanna. Þegar ekki er um jafntefli að ræða getur komið upp staða eins og nú er mjög rætt um. Í knattspyrnu eru til fræg dæmi um að lið hafi umfram allt kosið jafntefli. Sjálfsagt ætti að vera að leyfa liðum að tapa ef hugur þeirra stendur til þess. Þegar fjögur lið vilja umfram allt tapa er verið að snuða áhorfendur og gölluðu fyrirkomulagi er einkum um að kenna. Kínverjar eru álitnir bestir í tvíliðaleik í hniti, en töpuðu óvænt fyrir Dönum í fyrstu umferð. Þetta er afleiðingin.

Pólitísk útgeislun Morgunblaðsins er ekki aðlaðandi og hefur aldrei verið. Til dæmis er þar grein núna sem sennilega er ritstjórnargrein, staksteinar eða eitthvað þessháttar og heitir „Er þetta pólitísk útgeislun?“ Hún fjallar um geislatæki Landsspítalans og sitthvað því tengt, sýnist mér eftir byrjuninni að dæma. Mjög líklegt er að þar sé tekið undir kæk stjórnarandstöðufjölmiðilsins sem kallaður er Ríkissjónvarp. Um þessi mál er fjallað daglega þar og hefur verið vikum saman. Nú, nú. Ég ætlaði að klikka á þessa merku grein um pólitísku útgeislunina, en þá er mér tjáð (af tölvunni) að það geti ég allsekki nema sverja einhverja hollustueiða við fyrirbrigði sem ég fyrirlít. Aðrir bloggarar á Moggablogginu geta í nafni mannréttinda (býst ég við) lokað bloggum sínum, en verða þó að sæta því að upphaf blogga þeirra eru alltaf aðgengilegt öllum bloggvinum þeirra a.m.k.

Þjónustan hjá Moggablogginu er góð. Bloggið er að vísu ekki svipur hjá sjón miðað við það sem einu sinni var. Nú virðist þurfa svona 30 vikuheimsóknir til að komast á 400 listann. Svo virðist sem það tölvufólk sem áður sinnti bloggurum sé annað hvort hætt eða farið að sinna öðrum störfum

Þær fræðigreinar sem ég hef hingað til haft einna mestan áhuga á eru sagnfræði, alheimsfræði og heimspeki. Undanfarið hef ég verið að lesa bókina „The Selfish Gene“ eftir Richard Dawkins og ég veit svei mér ekki nema ég ætti að bæta líffræði við þessa upptalningu.

IMG 0998Strandlíf í Reykjavík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband