1667 - Rafbókavæðingin

024Gamla myndin.
Líklega er þessi mynd úr Bauluferðinni eins og sú síðasta. Þarna finnst mér ég þekkja flesta. M.a. Sigurjón Guðbjörnsson, Jón Eðvald Alfreðsson, Kristján Óla Hjaltason, Guðmund Jóhannsson, Hörð Haraldsson, Jóhann Steinsson, Halldór Jóhannesson, Jóhönnu Karlsdóttur, Jónu Þorvarðardóttur og Örn Friðriksson. Bilstjórann þekki ég ekki.

Það er margt í sambandi við tölvuvæðinguna sem ég hef áhuga á. Sérstaklega er þar um rafbækurnar að ræða. Útbreiðsla þeirra er að aukast stórlega um þessar mundir. Íslendingar hafa verið ákaflega lengi að taka við sér á því sviði. Tölvur af öllu taki hafa lengi verið ofmetnar í skólastarfi. Litið hefur verið á færni í tölvunotkun sem sérstakt fag, en svo er alls ekki. Þær eru bara verkfæri. Ef skilningur nemenda er ekki fyrir hendi er ekki hægt að bæta úr því með tækjabúnaði eingöngu, hversu vandaður sem hann er. Hvað skólastarf allt varðar hafa Íslendingar reynt að fylgja hinum Norðurlöndunum eftir. Það hefur verið fremur erfitt. Einkum vegna þess að á stjórnmálasviðinu hefur verið reynt að apa sem mest eftir andstæðingum norræna módelsins. Minnimáttarkennd Íslendinga hefur svo oft leitt til furðulegs sjálfbyrgingsháttar og oflætis. Þannig virðist sú skoðun vera landlæg núna að við þurfum ekkert að sækja til útlendinga og getum sem best verið ein á báti.

Sú skoðun að það sé einkum Dönum að kenna hve aumir við Íslendingar vorum í gegnum aldirnar er talsvert ríkjandi ennþá. Þó eru menn farnir að gera sér grein fyrir því að á margan hátt er um þjóðareinkenni að ræða. Danir gerðu það sem þeir gátu til að láta Íslendinga rakna við sér, en það kom fyrir lítið. Fáeinir stórbændur réðu nánast öllu hér og komu í veg fyrir allar framfarir. Þegar nálgaðist tuttugustu öldina byrjaði samt örlítið að rofa til. Fyrri heimsstyrjöldin og kreppan í kjölfar hennar stöðvaði þó allar framfarir og allt virtist stefna í sama volæðið og fyrr, þegar blessað síðara heimsstríðið kom og Bretar og síðar Bandaríkjamenn tóku okkur undir sinn verndarvæng.

Þá tóku miklar framfarir við og þannig hefur það verið síðan. Kreppan sem hér og víðar reið yfir fyrir nokkrum árum er á undanhaldi núna en heimsmyndin er breytt. Ofurvaldi Bandaríkjanna og Evrópu er að ljúka. Langan tíma munu þær breytingar samt taka og við Íslendingar fáum þar litlu um ráðið. Eigum einkum um þrjá kosti að ræða. Í fyrsta lagi einangrunarstefnu, eins og fyrr á öldum. Í öðru lagi samstarf við Evrópu sem nú virðist einkum felast í inngöngu í ESB og í þriðja lagi að reyna að þóknast Bandaríkjamönnum sem mest og líkja eftir þeim. Það hefur verið gert á stjórnmálasviðinu síðustu áratugina, en efast má um að það sé okkar heppilegasta leið.

Ingimar Karl Helgason veltir mikið fyrir sér eignarhaldi á 365 miðlum og margir eru sömu skoðunar. Margt virðist skrýtið í sambandi við það eignarhald. Auðvitað er best að treysta engum og búast alltaf við því versta af öllum en það er líka hægt að týna sjálfum sér í samsæriskenningum og getsökum. Er Jón Ásgeir yfirmaður Jóhönnu forsætis? Ef Ingibjörg Pálma ákveður nú að skilja við Jón Ásgeir hvert fer þá eignarhaldið á öllum fjandanum? Er baráttunni um sálir Íslendinga stjórnað af Mogganum og 365 miðlum? Er ESB og forsetaembættið bara undirdeildir í þeirri miklu baráttu?

IMG 0048Öryggi – ábyrgð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband