1615 - Snorri í Betel

Untitled Scanned 80Gamla myndin.
Hér skemmta menn með miklum tilþrifum í sundlauginni í Laugaskarði. Líklega er myndin tekin 17. júní.

Margt bendir til að kreppan sé um það bil að taka enda. Núverandi ríkisstjórn getur þó varla setið út kjörtímabilið. Þar er Evrópusambandsaðildin of stór ásteitingarsteinn. Líklega verða næstu þingkosningar afar þýðingarmiklar. Komist Sjálfstæðisflokkurinn á ný til valda er eins víst að hrunstarfsemi hefjist hér að nýju. Þó kann að vera að sú stefna flokksins sem hruninu olli verði mildari að þessu sinni. Endurnýjun þingmanna flokksins er þó nauðsynleg og það sama má segja um Samfylkinguna. Stjórn hennar að undanförnu hefur einkum komið til vegna skorts á öðrum kostum. Læt svo lokið stjórnmálapælingum að þessu sinni og reyni að snúa mér að öðru.

Ég hef orðið þess var bæði í athugasemdum og annars staðar að sumir lesenda minna (sem eru furðu margir) hafa verið ósáttir við það sem ég hef skrifað um Snorra í Betel. Kannski skulda ég þeim skýringu.

Fyrir mér er málfrelsi heilagt og ég reyni að styðja það ef ég mögulega get. Að mínum dómi eru DoctorE og Snorri í Betel á sínum endanum hvor á trúarbragðaásnum. Báðir blogga og DoctorE var rekinn af Moggablogginu en Snorri endurreistur þar. Sjálfur tel ég mig DoctorE- megin við miðju. Með öfgum sínum og óbilgirni tel ég þó DoctorE skaða nokkuð trúleysi, afneitun og efahyggju. Á sama hátt tel ég Snorra í Betel skaða mikið aðra Jesúhoppara með skoðunum sínum og jafnvel alla kristni þó það sé að teygja málið ansi langt. Les reyndar afar sjaldan bloggið hans Snorra en hef heyrt því haldið fram að sumt þar sé beinlínis hatursáróður. Með slíka flokkun verður að fara afar varlega því mikil hætta er á að niðurstaða í slíku litist af pólitískri sannfæringu. Það á alls ekki að nægja til þöggunar, heldur finnst mér nauðsynlegt að menn með mjög ólíka pólitíska sýn séu sammála um slíka flokkun svo mark sé á henni takandi.

Hvað snertir brottrekstur Snorra úr kennarastarfi verð ég að viðurkenna að ég þekki málið ekki eins vel og vera þyrfti til að ég geti kveðið upp marktækan dóm um það. Margt bendir samt til að það sé einkum vegna skoðana Snorra (sem aðallega birtast á blogginu hans) sem hann er rekinn úr starfi. Sé svo finnst mér brottvikningin óréttmæt og ekki í samræmi við það sem tíðkast yfirleitt í skólum. Réttur vinnuveitanda hlýtur samt oftast að vera a.m.k. jafn rétti launþega.

IMG 7914Frá Kópavogi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband