1577 - ÓRG og ESB

Scan160Gamla myndin.
Úr Alþýðubandalagsferð. Júlíus (oft kallaður Júlli Bakk), Sigurður Guðbrandsson og Skúli Alexandersson.

Sú hugsun mín að helst ekki megi henda mat hefur ekkert með sparsemi að gera. Það finnst mér a.m.k. ekki. Hún hefur ekkert með svöngu börnin í Kongó að gera heldur. Þetta er bara eitthvað sem hefur stimplast fast í undirmeðvitundina. Mér líður illa ef ég sé illa farið með mat. Samt er það mér huggun að vita að ormar, skordýr og fuglar munu líklega í fyllingu tímans gera sér gott af honum. Nú, eða þá að hann verði einhverntíma að gasi sem hægt er að knýja bílvélar með. Það er líka betra að sætta sig við að maturinn skemmist og ekki náist að borða hann ef hann er ódýr. Nei, annars. Verðið skiptir engu máli. Það sem skiptir máli er hvort mér finnst maturinn góður. Það er miklu erfiðara að sjá á eftir góðum mat í hundskjaft en vondum. Þýðir þetta að þessi veikleiki minn er áunninn og ekkert að marka hann? Ég viðurkenni að þetta hefur versnað með aldrinum. Hugsa að ég hafi jafnvel leikið mér að mat þegar ég var lítill. Þetta er mjög skrýtið.

Rithöfundar verða alltaf að hafa marga þræði í hendi sér samtímis. Ég er ekki rithöfundur því ég missi alltaf aðalþráðinn. Einmitt þráðinn sem ekki má missa. Aumingja höfundurinn má ekki gleyma neinu því alltaf eru einhverjir sem taka eftir því. Verst af öllu er að skrifa krimma sem jafnframt hefur þjóðfélagsleg markmið og ég meina ekki neina kommúníska sósíólógíu þar sem Stakhanov vesalingurinn framleiðir jarðýtur eins og hundrað manns. Svo vita aumingja rithöfundarnir aldrei hvort þeir fái borgað fyrir sína þrotlausu vinnu. Þá er nú betra að fá borgað fyrir skrifin í uppmælingu. Eða þýða ferðabæklinga o.þ.h. En nú er ég búinn að missa þráðinn eins og venjulega. Ég er samt alveg viss um þetta átti að verða óvenju snjallt hjá mér.

Oftast nær finnst mér ekki kominn tími til að gera það sem ég skrifa að bloggi fyrr en komin eru þrjú atriði eða svo. Auðvitað er þetta spandans og eitt væri alveg nóg. Stundum hætti ég líka við að gera það að bloggi sem ég skrifa. M.a. þessvegna finnst mér óþarfi að flýta mér að setja það upp sem mér dettur í hug. Ef efnið er fréttatengt getur það samt skipt máli en annars ekki.

Nú er ég farinn að sakna fuglanna sem vanir voru að koma hingað öðru hvoru og athuga með matargjafir og að fá sér eitthvað í gogginn ef þannig lá á þeim. Þetta er alveg satt. Þeir hafa ekki látið sjá sig frá því á gamlársdag. Ekki finnst mér að snjórinn hafi minnkað síðan þá svo líklegast er að þeir hafi hræðst sprengignýinn og rati ekki til baka. Sagt er að hundar og kettir hræðist gamlárskvöldslætin og hversvegna þá ekki fuglar líka?

Kannski ætlar Ólafur Ragnar Grímsson sér forystu fyrir nei-sinnum í baráttunni gegn ESB-aðild til að geta eignað sér sigurinn sem þar blasir við. Sá sigur verður kannski dýrkeyptur með tímanum og bara tímabundinn. Samt kann að vera að hann stefni á það. Þjóðernissinnuð sjónarmið er auðvelt að rökstyðja og glíma nei-sinna er hartnær unnin. A.m.k. í þessari lotu. Ein besta tillagan sem ég hef séð um ÓRG er sú sem Jónas Kristjánsson kom með á bloggi sínu: „Hvers vegna ekki að gera Ólaf að biskupi?“

Ég veit ósköp vel að ég er innbilskur og ímynda mér að það sem ég skrifa hér sé einhvers virði. Þeir sem skilja þetta gera það samt fyrir mig að lesa það og jafnvel að kommenta öðru hvoru. Með þessu eru þeir að lengja í snörunni og tryggja að ég haldi þessari vitleysu áfram. Kannski er þeim alveg sama. Kannski vilja þeir stuðla að því að ég skrifi sem allra mest. Ég reyni a.m.k. að telja mér trú um það. Með öðrum orðum. Ef allur lestur og öll komment mundu hverfa þá mundi ég kannski hætta. Já, gott ef þetta er ekki einmitt þannig.

Stundum fæ ég hugljómun með því að lesa annarra manna blogg. Reyni samt að forðast að það sjáist að ég er að vinna með hugmyndir sem ég hef fengið þaðan. Oftast er það auðvelt því engin líkindi er til þess að ég fái frekar hugmyndir frá þeim sem ég er sammála. Kannski les ég samt frekar blogg þeirra sem ég er vanur að vera sammála. Getur verið að með þessum hætti stjórnist umræðuhefðin sem svo oft er nefnd. Mér hefur dottið það í hug. En ég get lítið gert að því hvað ég les. Ekki er það meðvitað hjá mér að lesa fremur eitthvað eftir þá sem eru sammála mér. Samt getur verið að ég geri það.

IMG 7604Ef verið er að flækjast um á traktor er gott að fylgjast með svona skiltum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband