1534 - Þingmenn svíkjast um

Scan615Gamla myndin.
Slappað af á Arnarhóli.

Því lengri sem bloggin mín eru þeim mun fleiri lesa þau. Segja tölvugúrúarnir í Hádegismóum ef mark er takandi á teljurum þeim sem á blog.is eru. Því fleiri linka í fréttir dagsins á mbl.is sem menn hafa því hærra komast þeir á vinsældalistann. Eða hvað? Nenni ekki að prófa það. Samt vil ég auðvitað að sem flestir lesi það sem frá mínu lyklaborði kemur. Það sem frá mér fer á bloggið eru bara þær hugsanir sem ég næ valdi á og tekst að færa í orð. Ekki er nokkur von til þess að ég nái að segja allt það sem mig langar að segja.

Í sjónvarpinu er sagt að hægt sé að spara 23%  með því að kaupa réttu hitastillana. Þeir röngu gefa víst bara 22% sparnað. Þetta er auðvitað ekki nógu gott og því er í fasteignablaðinu finnur.is sagt frá óvenju glæsilegu húsi í Stykkishólmi sem er með innréttingu og sturtu. Í gamla daga sögðu Siggi Jóns eða Ásgeir bróðir hans að Svabbi Marteins hefði keypt sér bíl sem væri bæði með lyftigræjum og palli. Að þessu var mikið hlegið.

Sé að Bjarni frændi hefur látið Árna Johnsen selja sér Þorláksbúðarvitleysuna. Þó Bjarni og Guðni blessi Árna í bak og fyrir sé ég ekki að það bæti búðarskriflið neitt. Þetta er og verður óttalegur hrútakofi eins og Jóhannes á fóðurbílnum frá Ólafsvík segir. Annars er mér sama. Það eru aðallega tónskáld og tónlistarunnendur sem fíla Skálholtsdómkirkju og ekki ætti hljómburðurinn að versna neitt þó fornleifar verði búnar til þarna við dyrnar. Verst er ef þetta er ofan á alvörufornleifum eins og Villi í Köben segir.

Oddný G. Harðardóttir hélt því fram í dag (miðvikudag) úr ræðustól alþingis að RUV hefði flutt upplognar og villandi fréttir um lyfjakostnað. Ekki er að sjá að Páli Magnússyni og félögum finnist taka því að svara þessu. Mér finnst það lítilsvirðing við Alþingi. Jafnvel meiri en Reykjavíkurborg sýndi með því að leyfa sauðsvörtum almúga að tjalda á Austurvelli. Annars virðast allir keppast við að sýna hver öðrum sem mesta lítilsvirðingu þessa dagana. Sjálfur vildi ég gjarnan geta lítilsvirt einhvern en er ekki viss um að geta það. Vonandi finnst þó einhverjum að smávegis lítilsvirðing sé fólgin í þessum skrifum. 

Þingmenn svíkjast um, segir Eiður Guðnason. Hann ætti að vita það. Mætingin í þingsal er heldur klén oftast nær. Hallærislegt er að hlusta á þegar hringt er inn svo hægt sé að láta hjörðina greiða atkvæði. Eða ekki.

Fór í smágönguferð í morgun í góða veðrinu. Þó klukkan væri farin að ganga tíu var ekki farið að birta að ráði.

Birtingin er ekkert að flýta sér,
þó veðrið sé gott.
Á gangstígunum er ég partur af landslaginu,
hundarnir líka.
Bílaskrímslin æða öskrandi eftir götunum,
en reiðhjólin læðast aftan að manni
og segja böh.

IMG 7105Þetta er líklega einhverskonar innsetning.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Annars virðast allir keppast við að sýna hver öðrum sem mesta lítilsvirðingu þessa dagana."
Þarna hæfðir þú beint í mark, sem endra nær. Virðingarleysi fyrir annara manna skoðunum, órökstutt skítkast og fullyrðingar sem enga stoð hafa í raunveruleikanum.  Þetta verður oft hrein ilska þegar menn eru komnir í nauðvörn. Þingið er undirlagt slíkum mönnum.

Ólafur Sveinsson 17.11.2011 kl. 00:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband