1498 - Vorið í Prag

Snemma árs 1968 voraði nokkuð skyndilega í Tékkóslóvakíu og Dubchek komst til valda. Ekki stóð það þó mjög lengi því í ágúst réðust Sovétmenn þar inn og komu sínum mönnum til valda aftur. Mörgum fannst Sovétstjórnin sýna þar hörku mikla og ég man eftir mótmælum við Sovéska sendiráðið nálægt gatnamótum Túngötu og Garðastrætis. Mannfjöldi var þar  talsverður og lokaði alveg fyrir umferð um göturnar báðar. Þori ekki að nefna tölur en fólkið skipti áreiðanlega hundruðum, en varla þúsundum.

Einhverju smávegis af tómötum og eggjum var kastað í húsið en ekki var það mikið og engar rúður voru brotnar. Lögreglan var þarna til að gæta þess að ekki syði uppúr. Mér er minnisstætt að skyndilega tók einn lögregluþjónninn sig útúr röð lögreglumannanna og réðist að mannfjöldanum og sveiflaði kylfunni æðisgenginn í kringum sig. Ekki veit ég af hverju þetta var og ekki heldur hvernig þetta endaði, en enginn held ég samt að hafi slasast. 

Mér finnst þessar deilur um eineltið á Vigdísi Hauksdóttur vera hallærislegar. Hún er bara eins og hún er. Fremur misheppnuð sem alþingismaður, að mér finnst, en ágæt að ýmsu leyti. Sköruleg og frek. Eins og sagt er oftast um kvenfólk. Karlmaður mundi vera sagður ákveðinn en ekki frekur. Í opna bréfinu frá henni er lítið sem ekkert af algengum stafsetningarvillum en hugsanagrauturinn þeim mun meira áberandi.

Finnst það eiginlega vera sölutrikk hjá útgefanda bókarinnar um biskupsdótturina og ríkisútvarpinu að vera með langt viðtal við hana á í sjónvarpinu á sama tíma og bókin er að koma út. Málefnið er þó í alla staði gott og þarft og ég er viss um að viðtalið við hana hefur verið áhrifamikið. Hlustaði samt ekki á það, en heyrði ávæning af því.

Eftir á að koma í ljós hvernig Karl biskup bregst við þessu viðtali. Mín kenning er sú að hann hugsi sig vandlega um, gefi ekkert upp og ákveði svo að gera ekki neitt.

Ég er svolítið á móti þessu sífellda tali um forsendubrest. Kollsteypur í húsnæðismálum eru næstum regla hér á Íslandi. Fjármálin ganga í sífelldum rykkjum. Ýmist er hér góðæri eða móðuharðindi af mannavöldum. Það er varla hægt að lifa á Íslandi nema tileinka sér verðbólguhugsunarhátt og/eða kæruleysi fyrir sem flestu. Kæruleysið gengur stundum útí öfgar en hjálpar mönnum oft að halda sönsum.

Sú stjórn sem hér var á vegum framsóknarmanna og sjálfstæðismanna (fékk völdin um 1995, að mig minnir) stuðlaði meðvitað að því allt fram að hruni, að færa þjóðlíf hér sem mest í áttina til þess bandaríska eða vesturheimska, en fjarlæga okkur norræna velferðarmódelinu. Auðvitað var þetta okkur til góðs á margan hátt meðan allt lék í lyndi og góðærið blómstraði.

Þegar bólan sprakk, féllum við aftur í norræna náðarfaðminn eða erum á leiðinni þangað. Flokkarnir ráða þessu ekki nema að litlu leyti, heldur sá stjórnmálakúltúr sem er að festa rætur hér. Vantraustið á Alþingi er ekki bara bóla og ekki að ástæðulausu. Það er margt sem bendir til að stjórnlagaráðið með sitt afmarkaða verkefni njóti meira trausts en það.

Auðvitað er ég alltof hátíðlegur í þessum skrifum mínum. Þykist flest vita og hef skoðanir á ýmsu. Leiðist samt þetta stöðuga fjas um málefni dagsins en get ekki stillt mig um það.

IMG 6828Ekki vissi ég að Náttúruverndarráð liti svona út.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband