1452 - Skák og mát

201Gamla myndin.
Bifrastarmynd. Þetta er Védís Elsa Kristjánsdóttir.

Hvað er það sem er mest eyðileggjandi í skákinni? Það eru þessi sífelldu jafntefli. Nauðsynlegt er að halda mót þar sem jafntefli eru útilokuð. Það er auðvelt. Hægt er um flest að taka tennis sér til fyrirmyndar. Jafnvel að hafa útsláttarfyrirkomulag eins og þar er oftast gert. Komi keppendur sér saman um jafntefli (eða verði það óumflýjanlegt) eftir svo og svo marga klukkutíma verði haldið áfram og tekin önnur skák með skiptum litum og stórlega styttum unhugsunartíma og haldið þannig áfram unz úrslit fást. Þetta er ekki erfitt, en mundi eflaust auka áhuga á skák mikið. Mundu góðir og gegnir meistarar taka þátt í svona löguðu? Ég held að þeir mundu gera það ef nógu mikir peningar væru í boði. En enda skákirnar ekki alltaf í hraðskákum og er það ekki allt annar hlutur en alvarlegar kappskákir? Er ekki nauðsynlegt að hafa á valdi sínu netspil og allskyns afbrigðilegheit til að ná langt í tennis? Það finnst mér og menn geta forðast hraðskákirnar með því að semja ekki jafntefli á skákir þar sem alls ekki er ljóst hvor stendur betur.

Hver er tilgangur lífsins? Hefur hann verið fundinn? Nei, ég hélt ekki. Og samt eru svona margir að leita. Mig grunar ekki hver hann er og þessvegna held ég bara áfram þessu bloggdundi. Það sakar fáa. Helst að sérstökum andstæðingum ESB bregði svolítið stundum þegar ég tek mig til og mæli með inngöngu.

Allt bendir til að kapphlaup vaxta og verðbólgu sé hafið aftur. Seðlabankinn hefur skellt sér á vaxtahækkunarvagninn og ekki er líklegt að hann fari þaðan fyrr en 20 prósent markið hefur nálgast verulega. Gefist Íslendingar á endanum upp á krónunni kann þetta þó að breytast.

Fór á bókasafnið í morgun og sá þar fyrsta bindið af Sögu Akraness. Tók hana ekki að láni því mér blöskraði þyngdin. Þó hefði ég nokkurn áhuga á að kynnast betur grúski og kenningum Gunnlaugs Haraldssonar um upphaf byggðar á Íslandi. Að hann skuli hafa komist upp með að kalla þetta grúsk sitt undirbúning að sögu Akraness og verið á launum í 14 ár við það er auðvitað tómt rugl. Væru þessar kenningar hans settar í handhæga og litla bók kæmi vel til greina að ég liti á hana.

Ég skrifa gjarnan á mitt blogg pólitískar hugleiðingar. Þó bloggið sé talsvert lesið (eða skoðað a.m.k.) eru ekki margir sem gera athugasemdir við þessar hugleiðingar mínar. Þessvegna held ég að þær séu e.t.v. nokkuð áhrifamiklar og eftirtektarverðar. Engir treysta sér semsagt til að mótmæla þeim. Þessvegna hljóta þær að vera marktækar. Svona reyni ég að hugsa því annars væri til lítils að vera að þessu. Kannski umbera lesendur mínir þetta bara af góðseminni einni. 

Varð vitni að undarlegu atviki á blómstrandi dögum í Hveragerði um daginn. Köttur nokkur ætlaði sér greinilega að komast yfir Breiðumörkina. Þar var bara bíll við bíl og þar að auki gangandi vegfarendur í hrönnum. Kötturinn beið góða stund eftir hentugu tækifæri til að komast yfir, en gafst svo á endanum upp og lallaði til baka. Kettir eru vanir að láta sér fátt fyrir brjósti brenna og skjótast yfirleitt yfir götur án vandkvæða. Þarna var umferðin meira að segja fremur hægfara, en kötturinn kannski gamall og lúinn þó ekki sæist það á honum.

IMG 6347Norðlenskt vatn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband