1442 - Hundi kannski stolið

105Gamla myndin.
Þetta er Vignir bróðir minn að skjóta af Husquarna haglabyssunni sem við áttum í eina tíð með Herði Vigni Sigurðssyni.

Í mínu bloggi linka ég sjaldan (næstum aldrei) í Moggafréttir. Segja má samt að stundum væri ástæða til þess. Mér hefur alltaf fundist sú fúnksjón hjá Moggablogginu að geta linkað beint í fréttir mbl.is vera misnotuð herfilega. Ég hef líka svo undarlegan smekk á fréttir að linkar af því tagi gætu misskilist. Leið útúr þessum vanda er ég nú búinn að finna. Ég birti fréttina bara í mínu bloggi eins og hún leggur sig og fimbulfamba síðan um hana eins og mér sýnist. Kannski er ég samt að brjóta einhvern rétt með þessu, en það verður þá bara að hafa það og væntanlega kemur það þá í ljós. Hér er fyrsta fréttin af þessu tagi:

Stálu tveimur tölvum og kannski hundi

mbl.is / Hjörtur

Brotist var inn í íbúð í Norðurmýrinni í Reykjavík í nótt. Íbúarnir sakna tveggja fartölva, auk hunds af chihuahuakyni, sem er svartur að lit.

Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gæti reyndar allt eins verið að hundurinn hafi séð sér leik á borði og yfirgefið heimilið af fúsum og frjálsum vilja þegar þjófarnir fóru út.

Mér finnst fyrirsögnin afar frumleg. Kannski hefur hundurinn bara stolið frelsinu. Þá er hann semsagt orðinn þjófur líka. Eða þjófhundur. Hvað er það sem gefur okkur mönnunum leyfi til að ráðskast með allt annað líf en mannlegt. Ráðskumst reyndar með það mannlega líka, en eftir vissum reglum. Regluleysið og réttleysið hjá öllum öðrum lífsformum er nánast algert. Í þessu tilfelli er hundurinn eign. Margt má auðvitað segja um þetta. Mér finnst dýravernd samt skipta máli. Sú fyrirlitning sem oft er sýnd gæludýrum er ótrúleg. Það er samt ósæmilegt fyrir mig að kvarta því ég er maður og á að láta mér allt svona í léttu rúmi liggja.

Af því (meðal annars) að ég linka ekki í fréttir á sama hátt og flestir aðrir geri ég stundum athugasemdir við mitt eigið blogg að umtalsefni. Kannski eru athugasemdir fremur fáar þess vegna. Hvað veit ég? Er lífið kannski allt eitt risastórt KANNSKI? Kannski er þetta alveg rétt hjá mér. Kannski er ég nú endanlega orðinn elliær. Kannski er kannski merkilegasta orðið í íslensku. Einu sinn var það alltaf skrifað „kannske“ með flámælisívafi og þótti ekki vitund fínt – jafnvel sletta. Kannski er það ennþá skrifað kannske í orðabókum og þ.h. Kannski ég fari bara að hætta þessu.

Badabing (Þórarni Þórarinssyni) er dálítið uppsigað við það sem ég skrifaði um hann í gær og helgar mér heilt blogg.

Við athugun sýnist mér að lítil ástæða sé til að elta ólar við það sem hann skrifar. Hann hefur látið reiðina ná tökum á sér og velur allskyns fúkyrði til að lýsa mér þó hann þekki mig ekki neitt.

Hann kallar mig t.d. Moggabloggara. En það virðist vera eitthvert magnaðasta skammaryrðið sem hann kann. Annað skammaryrði sem honum er greinilega nokkuð tamt er Aðalsteinn Ingólfsson.

Ég er eiginlega alveg heimaskítsmát, því ég skil ekki svona lagað. Að vísu held ég að ég hafi einhverja hugmynd um hvað Moggabloggari er og Aðalstein Ingólfsson hef ég heyrt minnst á.

Að öðru leyti finnst mér Þórarinn verja mestu plássi í að réttlæta sjálfan sig og undarlegheit sín. Mér finnst samt gaman að honum og mun halda áfram að lesa bloggið hans jafnvel þó hann skrifi framvegis sem hingað til með hvítum bókstöfum á svartan grunn.

IMG 6260Gluggi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband