1230 - Okkur skjátlaðist

Okkur skjátlaðist, segir Guðmundur Andri Thorsson í mánudagspistli sínum í Fréttablaðinu. Sá hann að vísu ekki þar, en Guðmundur birti hann líka á fésbókinni og þar sá ég hann. Jú, fésbókinni er alls ekki alls varnað. Þetta er ágætur pistill og ég lét það eftir mér að athugasemdast ögn þar. Frá upphafi deilna um þetta mál hefur mér þótt rök andstæðinga um mismunun í neyðarlögunum svokölluðu vera mjög sterk. Bretar og Hollendingar níðast á okkur eins mikið og þeir geta. 

En erum við ekki að gera okkur sek um áhættuhegðun ef við höldum áfram að sýna Bretum og Hollendingum fingurinn í þessu máli? Ég hef alla tíð verið hræddur við dómstólaleiðina svokölluðu. Bæði vegna þess að líkur eru á að hún taki mjög langan tíma og einnig vegna þess að hún gæti sprungið illilega í andlitið á okkur.

Davíð gengur laus. Hef það fyrir satt að Davíð Oddsson gangi enn laus þó málsmetandi menn hafi lýst því yfir að hann sé óalandi og óferjandi. Mynd sá ég af honum fyrir löngu þar sem hann var að hefja sig til flugs af þaki Seðlabankans á eldflaugaskónum sínum. Kannski komst hann bara upp í Hádegismóa en ekki á braut umhverfis jörðu. Svo er víst komin fram tillaga um að Davíð komi í stað dýrsins í söngnum alkunna þar sem talað er um að dýrið gangi laust.

Mér leiðast svona pólitískir fimmaurabrandarar. Skrýtlur sem maður skilur alls ekki í byrjun eru þær bestu. Nefni samt engin dæmi. Það gæti misskilist.

Af hverju skyldi ég vera svona miklu hliðhollari blogginu en fésbókinni? Og vera þar að auki Moggabloggari? Skil það bara ekki. Er að hugsa um að senda vísindavefnum fyrirspurn um það.

Þegar ég fer að gá að einhverju á netinu er ég yfirleitt búinn að gleyma áður en leitinni er lokið að hverju ég var að gá og farinn að skoða eitthvað allt annað. Þetta hlýtur að vera vegna þess hve netið er hægvirkt hjá mér. Ekki er ég orðinn svona ruglaður.

Best af öllu er að ánetjast hvorugu, blogginu eða fésbókinni. En það er erfitt. Næstum því eins erfitt og að hætta að borða góðan mat.

Þegar ég fór í megrun - örsaga nr. 4

Um daginn ákvað ég að gerast heilsufrík. Það var óvitlaus ákvörðun hjá mér því ég er satt að segja orðinn svo fótfúinn í seinni tíð að ef veggirnir væru ekki meðfram stiganum niður á jarðhæðina er ég ekki viss um að ég kæmist ódottinn niður.

Eftir langa umhugsun komst ég að þeirri niðurstöðu að þó ég væri orðinn heilsufrík þá þyrfti ég ekkert endilega að fara í heilsuræktarstöð. Svoleiðis nýmóðins rusli hef ég nefnilega bara kynnst af myndum og þessháttar í sjónvarpi flestra landsmanna. Þar virðist allskyns pyntingartækjum vera komið fyrir í löngum röðum og fólki komið þar fyrir eftirlitslaust.

Jæja, ég fór þá bara út að hlaupa. Hlaupið varð þó fljótlega að göngu. Og síðan hægri göngu (ekki vinstri). Að lokum stoppaði ég þó því ekki varð lengur hjá því komist að snúa við. En hvað um það, megrun var það.

Dýrindis baðvog keypti ég og kílóunum fækkaði. Gef þó ekki upp mótþróalaust hve mikið. Fljótlega þurfti að fá nýtt battery í vigtina. Það kláraðist innan skamms einnig því ég vigtaði mig í tíma og ótíma. Þá gat ég aftur farið að éta eins og svín og gerði það svikalaust.

Við það fór megrunin dálitið úr skorðum og ég þyngdist í stað þess að léttast. Sú var a.m.k. mín vigtarlausa upplifun.

Svo fór ég að telja kalóríur. Það er víst nauðsynlegt fyrir heilsufrík. Þær voru vel yfir tvö þúsund.

Hráefni í mat tók ég líka í gegn. Í stað þess að fá æði (svokallað mataræði) í hvert skipti sem ég settist til borðs, þá for ég að éta standandi. Hætti því samt fljótlega og hélt áfram að þyngjast. Frekari aðgerðum á þessu sviði er frestað þangað til eftir jól.

IMG 3945Hér fékk Gnarrinn víst merkið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband