1180 - 500 frambjóðendur

Bráðum koma fljúgandi til mín upplýsingar um frambjóðendurna fimm hundruð. Annað hvort verður það af Netinu eða þær munu koma til mín fyir tilverknað póstþjónustunnar. 

Þá tekur við einn erfiðasti hluti stjórnlagaþingskosninganna. Það er að ákveða hverjir 25 fá mín atkvæði. Skilst að sá sem ég set efst á listann fái heilt atkvæði en sá í 25. sæti fái tuttugasta og fimmta hluta úr atkvæði og aðrir tilsvarandi. Þetta gerir talninguna svolítið flókna og tafsama en væntanlega sjá tölvur um þann hluta og ekki vorkenni ég þeim.

Mér fannst talsvert um vinalæti á Moggablogginu þegar það var uppá sitt besta en á fésbókinni tekur þetta út yfir allan þjófabálk. Sennilega er það mest vegna þess að ég tók uppá því að safna fésbókarvinum að nú gengur ekki á öðru en tilkynningum um vinskap fólks. Veit ekki hvernig þetta endar. Best þætti mér auðvitað að allir væru bara vinir allra en það er víst ekki nógu gott.

Til að gleðja alla og sérstaklega sjálfan mig er ég að hugsa um að hafa þetta stutt núna og fara snemma að sofa. Hér var fjölmennt í kvöld. Étin steikt lifur og fiskisúpa. Gulrótarkaka í eftirmat. Jamm og já. Mestallur dagurinn fór í aðdrætti og matseld enda stórfjölskyldan orðin rúmlega 10 manns. Gerðum líka fjórar lifrar að ágætis fæðu sem dugar vel með því að breyta þeim í lifrarpylsur.

Íslensk fjallanöfn eru oft sérkennileg. Var að lesa í bók um fjallið Fanntófell á Vesturlandi. Það finnst mér einkennilegt nafn. Á svipuðum slóðum er fjallið Stélbrattur. Það finnst mér líka skrýtið fjallsnafn. Auðvitað er það svo að þegar menn hafa vanist fjallsnafni hættir þeim að finnast það skrýtið. Býst t.d. við að fáum Mývetningum þyki fjallsnafnið Vindbelgur einkennilegt. Það finnst mér þó.

IMG 3537Laufblað á asfalti eða olíumöl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband