2572 - Tromparinn eilífi

Tölvan mín segir mér að bolludagur sé ekki fyrr en um næstu mánaðamót. Þessi mánuður er að vísu hálfnaður í næstu viku, en samt eru bakaríin farin að hamast við að auglýsa rjómabollurnar. Sennilega ætlast þau til að fólk sé að úða í sig slíkum bollum hvort sem það er bolludagur eða ekki. Ja, heimur versnandi fer.

Þetta innlegg setti ég á fésbókarfjárann áðan því ég var hræddur um að það yrði of gamalt þegar ég loksins mundi setja það á bloggið mitt. Það er að segja þetta með vikulokin. Ég vona svo sannarlega að mér takist að blogga oftar fyrir bolludaginn. Auk þess minnir mig að mér hafi verið fortalið að Herra Gúgli taki mun minna mark á fésbókarinnleggjum en samskonar vitleysu sem sett er í blogg. Þess vegna er þetta nú hér ennþá. Var nefnilega nýbúinn að senda frá mér blogg þegar mér datt þessi snilld í hug.

Í morgun (sunnudag) fór ég ekki út að labba fyrr en bjart var orðið. Einhverntíma hef ég að mig minnir skrifað um ruslatunnuveður. Það er þegar ruslatunnur í Kópvoginum fjúka og björgunarsveitarmenn hlaupa á eftir þeim. Í morgun var einskonar mávarok hér á Akranesi. En þá stunda mávar það í brekkunni við Langasand að æfa hverskonar fluglistir. Með því að vanda sig tekst þeim að halda nokkurn vegin kyrru fyrir í loftinu án þess að blaka vængjunum. Þessu fylgdist ég með langtímum saman í morgun. Björgunarsveitarmennirnir í Kópavogi hurfu hinsvegar snarlega fyrir næsta horn.

Er þá ruslatunnuveðrið verra en mávarokið? „Já miklu hættulegra því tunnurnar geta hæglega fokið á mann en það gera mávarnir ekki.“

Einu sinni var sagt að Pálmi Gestsson hermdi svo listilega eftir Halldóri Ásgrímssyni að menn ættu það til að ruglast á þeim. Verra er þetta í henni Ameríku, því Alec Baldwin ku herma svo vel eftir Donald Trump og líkjast honum svo mikið ef hann grettir sig hæfilega (sem minnir mig náttúrulega á söguna um Grettir Sig., en það er önnur saga.) Hann líkist Tromparanum semsagt svo mikið að útbreitt blað í Suður-Ameríku birti mynd af Alec Baldwin í gervi Trumps þegar það ætlaði að birta mynd af Tromparanum sjálfum.

Nú er ég einu sinni enn byrjaður að fjölyrða um Tromparann. Get bara ekki á mér setið. Áhugi minn á bandarískum stjórnmálum hefur vaxið undanfarna daga. Óneitanlega eru þetta áhugaverðir tímar hvað heimspólitíkina snertir sem við lifum núna. Fylgist nokkuð með bandarísku stórblöðunum og baráttu þeirra við furðufyrirbærið í Hvíta Húsinu. Washington Post (og reyndar fleiri blöð) gagnrýna forsetann ótæpilega. New York Times fer hinsvegar afar varlega í gagnrýni sinni. Donald Trump reynir að svara fyrir sig. Einkum með allskonar yfirlýsingum á Twitter-síðu sinni sem margir fylgjast með. Ferðabannið mistókst hjá honum og nú hefur einn helsti hernaðarráðgjafi hans verið rekinn. Ætli blaðafulltrúinn (les: blaðurfulltrúinn) verði ekki næstur. Eiginlega er þetta allt saman orðið æsispennandi. Kannski finnst mér þetta bara af því ég les blöðin og hef áhuga fyrir fréttum af þessu tagi, einmitt núna, hvað sem síðar verður.

IMG 1000Einhver mynd.


Bloggfærslur 14. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband