2663 - Um dauðann o.m.fl.

Einhver læknir var að skrifa í Fréttablaðið um daginn um ótímabær dauðsföll. Held að hann hafi verið að tala um bráðkveddu, hjartaslag og þessháttar. Ekki er ég að gagnrýna hann, en þetta orðalag hlýtur að þýða að sum dauðsföll séu tímabær. Sjálfur er ég efalaust að nálgast þau tímamót að dauðsfall mitt sé tímabært. Svolítið er það samt óhugnanlegt.

Skelfingar viðkvæmni er þetta, kynni einhver að hugsa og jafnvel segja. Dauðinn og allt sem honum tilheyrir er algjört tabú hér á Íslandi. Ekki held ég að svo sé allsstaðar. Einhvern staðar las ég að u.þ.b. 200 þúsund manns deyji á hverjum degi í heiminum og ekki sé mikið þó 50 milljónir manna láti lífið í einni smáheimsstyrjöld.

„Skelfing deyr af fólkinu eftir að útvarpið kom“, var haft eftir einhverjum sem ekki fylgdist vel með. Kannski það hafi verið sá sami og sagði um lætin í síðari heimsstyrjaldarinni þegar sífellt var talað um það í útvarpinu og annars staðar að svo og svo margir hefðu fallið. „Það veit ég, að þetta endar með því að þeir drepa einhvern“.  

Hér er lítið dæmi um hve miklu smávægilegur misskilningur getur valdið. Í Passíusálmunum er mér fortalið að standi einhversstaðar:

Sálin má ei fyrir utan kross,
öðlast á himnum dýrðarhnoss.

Ekki er ætlun mín að véfengja þetta, en sagt er að sveitarlimur einn hafi orðið óður og uppvægur þegar ráðgert var að flytja hann á annan bæ sem var víst utar í sveitinni en bærinn Kross. Utanbókar kunni hann mestalla Passíusálmana.

Í Bandaríkjunum, og kannski víðar, er til myndefni af mörgum fjöldamorðum sem tekin eru upp af öryggismyndavélum. Hart er nú deilt um hvort gera skuli myndbönd þessi aðgengileg almenningi og eru sjónarmiðin mörg. Sumir vilja t.d. eyða þeim með öllu, ef ekki þarf á þeim að halda núna. Ekki síst á þetta við um fjöldamorðin sem framin voru í kirkju í smábæ í Texas nýlega. Sá atburður í heild sinni er til á myndbandi. Til stendur jafnvel að rífa kirkjuna þar sem þetta átti sér stað og reisa í staðinn minnismerki um þá sem létu líf sitt þennan örlagaríka dag.

Fremur dapurlegt er þetta innlegg mitt að verða og biðst ég afsökunar á því. Við því er þó ekkert að gera. Svona hugsa ég bara.

Deila má um hvort fólk sé kattafólk eða hunda. Sjálfur er ég hallari að köttum. Kettirnir hugsa fyrst og fremst um eigin hag, held ég. Hundarnir virðast aftur á móti hugsa mjög um hag yfirhundsins, hvort sem það er manneskja eða ekki. Einnig hugsa þeir oft vel um þá sem minni máttar eru. Vel má líka hugsa sér að vilja hafa báðar tegundirnar í kringum sig eða hvoruga. Hávaði og hreinlæti getur skipt miklu í því sambandi.

IMG 0594Einhver mynd.


Bloggfærslur 10. nóvember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband