2535 - Óttarr Proppé

Ég er alltaf að spá. Yfirleitt vitlaust reyndar. T.d. spáði ég alls ekki Trump sigri í Bandaríkjunum og ekki spáði ég rétt í Brexit málinu. Einhvern tíma hlýt ég samt að spá rétt. Nú spái ég því t.d. að Bjarna Ben. takist ekki að mynda ríkisstjórn. Það er líklegra að Katrínu Jakobs. takist það. Sumt í málflutningi Vinstri grænna er þó svolítið umdeilanlegt, en menn voru fyrst og fremst að hafna núverandi ríkisstjórn í kosningunum í októberlok. Og sennilega er auðveldara að fá Viðreisn til að vinna til vinstri en til hægri.

Ég lít svo á að Donald Trump komi ekki þeim málum fram sem lögð er mest áhersla á að hann standi við. Ekki síst af andstæðingum hans og reyndar einnig af mörgum stuðningsmönnum hans líka. Forsetinn er fremur valdalítill eins og allir vita. Í kosningabaráttunni sagði hann aðallega það sem áheyrendur hans vildu heyra. Með tilkomu Trump sem forseta Bandaríkjanna mun íhaldssemi aukast verulega í USA, á því er enginn vafi og má landið síst við því. Innflytjendalöggjöf verður hert, umhverfismál verða stöðvuð, o.s.frv. Innviðauppbygging og endurreisn iðnaðar verður ekki með þeim hætti sem Trump og aðrir íhaldsmenn vonast eftir. Auðveldur sigur mun blasa við demókrötum eftir 4 ár. Hillary ætti að halda áfram baráttu sinni, eins og Nixon gerði eftir að hafa tapað fyrir Kennedy.

Pétur á Kópaskeri kallar Trump federalista. Ég hefði haldið að federalisti væri sá sem vildi veg bandarísku alríkisstjórnarinnar sem mestan. Yfirleitt eru repúblikanar ekki á þeirri skoðun. Trump er hinsvegar enginn venjulegur repúblikani. Geta ríki eins og Kalifornía og Texas sagt sig úr lögum við alríkisstjórnina? Ég held ekki. Þó hafa flest núverandi ríki Bandaríkjanna gengið í ríkjasambandið USA á mismunandi tímum og eflaust á mismunandi forsendum. Ekki er ég sérfróður um þessi málefni.

Dósent í næringarfræði við Háskóla Íslands segir að gamalt fólk á sjúkrastofnunum sé vannært. Víða mundi það vera kallað svelti. Annars hefur mér skilist að vannæring sé ekki það sama og hungur.

Erum við virkilega ekki komin lengra í almennri heilsugæslu, en þetta?

Áður fyrr var gamalt fólk stundum rekið fyrir björg í hallærum. Svo er sagt a.m.k. Ég hef alltaf haldið að þessháttar aðferðum hefði verið hætt með öllu að beita fyrir mörgum öldum. Stefna núverandi stjórnar í málefnum aldraðra og öryrkja minnir samt um sumt á þessa gömlu flökkusögu.

Ég er með þeim ósköpum gerður að ég vil pólitískt séð hafa lagfæringar á stjórnarskránni framarlega í þeirri forgangsröðun sem ég legg áherslu á. Þó ég hafi kosið Pírata í síðustu kosningum var ég ekki hrifinn af stefnu þeirra í stjórnarskrármálinu. Eins og Guðni Th. sagði í kosningabaráttunni til forsetaembættisins þarf ekki endilega að taka allar lagfæringar í stórum stökkum. Lítil von var til þess að fá fram meiri breytingar á stjórnarskránni á síðasta kjörtímabili en búið var að samþykkja í stjórnarskrárnefndinni. Þessvegna fannst mér stefna Óttarrs Proppés og Bjartrar framtíðar í því máli vera skynsamleg. Sá flokkur hafði líka þor og djörfung til að standa gegn búvörusamningunum.

IMG 3381Einhver mynd.


Bloggfærslur 13. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband