2534 - Hin hljóðu tár

Sennilega sér Donald Trump veröldina dálítið í svart hvítu ljósi. Þ.e.a.s. ef þú ert ekki með mér þá ertu á móti mér. Allt er hann tilbúinn til að láta af hendi til að bæta samningsstöðu sína. Líklega hefur hann engin prinsipp nema sjálfan sig. Kannski verður það allt í lagi. Ég er sammála Ómari Ragnarssyni um, að það hættulegasta í fari hans er hugsanlega inngróin andstaða hans við allar kenningar um náttúruvernd, hnatthlýnun og þessháttar þó hann í hina röndina sé hallur undir hverskyns öfga og samsæriskenningar.

Forsetaframbjóðendur í Bandaríkjunum eru oftast misheppnaðir. Oft góðir ræðumenn hinsvegar. Menn láta alveg eins og flokkshollustan skipti engu máli. Það er einfaldlega venja að sá flokkur sem átt hefur forseta í tvö kjörtímabil í röð í Bandaríkjunum tapar í næstu kosningum á eftir. Vitanlega er flokkshollustan ekki nærri eins mikil og hér á Íslandi en hún skiptir samt máli. Ekki bara peningar eða skortur á þeim.

Þó er ég alls ekki þeirrar skoðunar að hægri sveifla sé allsstaðar í hinum vestræna heimi að verða reglan. Baráttan milli norðursins og hinna suðrænu áhrifa mun sennilega aukast verulega á næstunni. Norðið er ríkt en suðrið er fátækt. Um ástæður þess fjölyrði ég ekki. Flóttamannastraumurinn á bara eftir að aukast. Ef Bandaríkin lokast verður Evrópa nauðbeygð til að gera betur. Kanada er varla hægt að telja með því stór svæði þar eru óbyggileg ennþá. Það kann þó að breytast. Síbería er líka geysistór.

Ég hef svo gaman af að skrifa, að þó ég sé gamall, fer ekki hjá því að ég velti bókarskrifum fyrir mér. Verst hvað ég skipti ört um áhugamál. Það kemur líka fram í blogginu hjá mér. Ég get ómögulega haldið þræðinum lengi. Verð alltaf að skipta reglulega um. Ekki held ég að það henti vel í bókarskrifum. Svo er ég heldur ekkert sérlega fljótur að skrifa þó ég kunni enn fingrasetninguna sem ég lærði á sínum tíma á Bifröst. Kannski hentar það einmitt betur núna þegar ég er farinn að hugsa hægar en áður var. Einn kosturinn eða ókosturinn við að verða gamall er nefnilega að allt gerist miklu hægar. Ekki hugsunin síður en annað. Kannski hefur dregið svolítið saman með skrifhraðanum og hugsunarhraðanum. Að skrifa langtímum saman um það sama hugnast mér samt allsekki.

Athyglisvert er að velta fyrir sér hverju hið lága olíuverð sem nú tíðkast, gæti hugsanlega komið til leiðar. Hækki olíuverð á næstunni eins og margt bendir til gæti það líka valdið ýmsu. Sú vinnsla sem nú á sér stað t.d. í Bandaríkjunum (fracking) getur t.d. haft heilmikil áhrif á vatnsöflun hverskonar. Heimurinn er einnig á ýmsan hátt að breytast um þessar mundir. Það að allskyns gerviheimar eru að verða til fyrir tilverknað þeirrar fjölmiðlunar og tölvuvæðingar, sem smám saman er að verða almenningseign, er ein af birtingarmyndum þessara breytinga. Túrisminn sömuleiðis.

Af einhverri rælni fór ég áðan inná vefsvæðið „Druslubækur og doðrantar“. Þangað hef ég stundum farið og aldrei orðið fyrir vonbrigðum. Óðar fór ég að lesa grein eftir einhverja sem ég veit ekki ennþá hver er. Þessi grein nefnist: „Þess vegna lokaði ég sársaukann inni og fór.“ Greinin fjallar m.a. um Ástu Sigurbrandsdóttur og bók hennar „Hin hljóðu tár“ sem kom út árið 1995. Man að ég las þessa bók og hún hafði mikil áhrif á mig. Ljótleiki og hryllingur styrjalda hefur eflaust farið framhjá okkur nútíma Íslendingum mörgum hverjum, en ég man að skilningur minn á þeim hryllingi óx við lestur þessarar bókar og hún er mér mjög minnisstæð. 

P.S Reyndi að skrifa komment á síðuna „Druslubækur og doðrantar“ en fékk það ekki.

IMG 2984Einhver mynd.


Bloggfærslur 11. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband