2403 - Megi aparnir þagna

Síðasti forsetinn sem ég man eftir að hafi flutt virkilega góðar ræður var Kristján Eldjárn. Þá var engin fésbók og ekki neitt og maður hafði nóg að gera fram eftir nýársdegi við að melta ræðuna. Þó hann véraði og ossaði bæði sig og aðra þá var tungutak hans þannig að þar fannst manni ekki vera hægt um að bæta. Aftur á móti finnst mér ræður ÓRG, einkum núna í seinni tíð, einkennast af heimskuþvaðri og þjóðernisrómantík. Get ekki að því gert að mér finnst sumt af því sem hann segir skýra vel af hverju HKL sagði að rjómatíkin væri jafnvel betri en pólitíkin. Enginn slær hann út í þjóðernisrembingi nema ef vera skyldi SDG, sem varla opnar munninn án þess að setja svona tvö eða fleiri heimsmet. Og svo þegar kemur nýr Sigmundur Davíð, þá þarf að slá öll þessi heimsmet uppá nýtt.

Er hugsanlegt að það verði banksterarnir sjálfir sem tapi mest í næsta bankahruni? Eflaust tekst að koma einhverju af því á ríkið, en varla öllu. Þeir hljóta að vara sig aðeins. Sama eða svipað er að segja um útlenda vogunarsjóði og þá eru bara löreglukórarnir í Bretlandi eftir. Kaupaukasjóðirnir íslensku eiga sér tæpast viðreisnar von núorðið. Það er varla spursmál lengur að nú er af alvöru mikilli stefnt á nýtt hrun. Mollið stóra við hringtorgið hjá Keflavík verður varla fullbyggt áður en hrunið kemur. Annars á ég varla von á að þetta nýjasta Keflavíkurævitýri verði að veruleika frekar en önnur.

Megi aparnir þagna á komandi ári. Já, það er ekki annað hægt finnst mér en að kalla þá apa, sem mest hafa sig í frammi á flestum fjölmiðlum og vilja helst ekki ræða við eða um aðra en félaga sína sem eins er ástatt um. Ansi er það orðið lítið þetta samfélag sem þrífst á fjölmiðlunum. Ætli þetta lið fái svona lágt kaup að ekki sé hægt að fá almennilegt fólk í þetta? Sjóndeildarhringurinn er a.m.k. ákaflega lítill. Kannski sum þeirra fari í forsetann. Það væri þá landhreinsun. Verst ef einhverjir láta glepjast til að kjósa þau.

Satt og logið sitt er hvað
sönnu er best að trúa.
En hvernig á að þekkja það
þegar allir ljúga?

Þetta er vísan sem ég er að velta fyrir mér um þessar mundir. Mér finnst ég alltaf vera að velta fyrir mér einhverjum árans vísum. Ekki velti ég svona fyrir mér þeim fáu sem ég geri sjálfur, enda tekur því ekki. Mér finnst þær nefnilega aldrei neitt góðar. En velti ég kannski bara fyrir mér góðum vísum? Það er ég allsekki viss um. Kannski ég láti bara nótt sem nemur hérna og hætti snimmhendis. Er ekki komið gott?

IMG 1625Einhver mynd.


Bloggfærslur 6. janúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband