2320 - Rögnunefndin o.fl.

Oft horfi ég á Útsvar. Það er með skemmtilegri spurningaþáttum sem í sjónvarpinu hafa verið. Samt forða ég mér alltaf þegar auglýsingastarfsemin hefst í lok þáttarins. Bara til að láta ekki hafa áhrif á mig. Eins höfðar yfirheyrslan um áhorf á fréttir í byrjun flestra þátta ekki til mín. Í huga auglýsenda eru gjafirnar í lokin sjálfsagt aðalatriðið. Mér finnst það fremur vera spurningarnar og svörin. Ógleymanlegt úr síðasta þætti er t.d. sellóhnéð.

Held að framsóknarflokkurinn haldi svolítið í hemilinn á sjálfstæðisflokknum. Sigmundur er ekki leiðtogi. Hann kann ekki að leyna heimsku sinni á sumum sviðum og er oft frekar óheppinn. Framsókn fékk hið mikla fylgi sitt í síðustu kosningum útá óttalegt plat og of margir sótraftar voru við það á sjó dregnir. Allt jafnar þetta sig þó að lokum og hugarheimur fólks er allt annar nú um stundir en áður var. Allar líkur eru á að Íslendingar bjargi sér útúr afleiðingum kreppunnar. Áhyggjur af ýmsum hlutum eru alveg að drepa margt fólk. Og auðvitað erum við öll sem vinnum skítavinnu fyrir lúsarlaun þrælar þeirra sem éta gull.

Ein umtalaðasta nefnd landsins þessa dagana er svokölluð Rögnunefnd. Hún á að ég held að skera úr um framtíð flugvallarins og er ekki öfundsverð af því. Afar heitar tilfinningar eru bundnar því máli og er flokkspólitík lítt blönduð í það mál. Kannski er það einkum þessvegna sem svona miklar tilfinningar eru þar í spilinu. Allt tengist þetta í mínum huga landspítalanum, nýbyggingum þar og umferðarmannvirkjunum sem rokið var í svotil undirbúningslaust við Hringbrautina. Auðvitað á flugvöllurinn að fara og hann gerir það vafalaust fyrr eða síðar. Eftir því sem það dregst lengur aukast erfiðleikarnir við þennan sjálfsagða hlut. Að tengja þetta mál baráttunni milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins er að skemmta skrattanum.

Mikið er rifist um mál Snorra í Betel. Hann var rekinn úr kennslustarfi fyrir að trúa biblíunni bókstaflega. Mér finnst tjáningarfrelsi vera lítils virði ef afsakanir af því tagi sem haldið var fram í máli Snorra eiga að gilda. Það er lítill vandi að vera hliðhollur tjáningarfrelsi þegar maður er sammála þeim sem um er rætt. Alveg er ég andvígur flestum þeim sjónarmiðum sem Snorri hefur haldið fram. Samt sem áður finnst mér hann hafa rétt fyrir sér í þessu máli.

Verður Ukraina hið nýja Viet-Nam? Margt bendir til þess að hagsmunir stórveldanna (fyrrverandi - segja sumir) Rússlands og Bandaríkjanna rekist harkalega á í Ukrainu. Kannski er Putín eitthvað bilaður ef hann heldur að hann ráði við Bandaríkjamenn. Bandaríkin eru enn það öflug hernaðarlega að stjórnin þar getur ráðið því sem hún vill. Fyrir því eiga Ísraelsmenn eftir að finna áður en langt um líður. Bandaríkjastjórn er óðum að verða afhuga stuðningi sínum við þá.

Alveg er vonlaust að taka þátt í fjörugum umræðum á fésbókinni og fá alltaf tilkynningar um innlegg. En auðvitað getur maður sjálfum sér um kennt. Tikynningafjöldanum er hægt að stjórna. Ekki þarf heldur að bregðast við öllum tilkynningum á sama hátt.

Nú á ég ekki fleiri myndir tilbúnar og eflaust er sumum sama um það.


Bloggfærslur 20. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband