2396 - Kárahnjúkar

Það var Kárahnjúkastíflan sem öðru fremur opnaði augu mín fyrir þeirri spillingu sem grasserar og landlæg er í íslenskum stjórnmálum og þjóðlífi öllu. Þó vissi ég þetta svosem og forðaðist pólitík eftir megni. Þegar mér var sagt (þegar ég var um tvítugt) að Gunnar Álfur Jónsson (vinnufélagi minn) væri þekktur fyrir að hafa tekið að sér að merkja á íbúaskrá á Selfossi stjórnmálaskoðanir manna (líklega fyrir framsóknarflokkinn) fannst mér ekki mikið til um það. Sumir hneyksluðust að vísu á þessu, en ég hneykslaðist mest á því að hann var alltaf svo boginn í baki þegar hann var fullur að hann var nánast einsog vinkill í laginu. Hann var eldri en ég og vann á skrifstofunni hjá Gunnari Vigfússyni sem var giftur föðursystur minni. Hún var reyndar hálfsystir föður míns en förum ekki nánar útí það.

Ekki veit ég hversvegna það er, en ég á ákaflega bágt með að halda þræði. Minntist lauslega á Kárahnjúkastífluna hérna áðan en er eiginlega þegar búinn að fá leið á því að skrifa um hana. Mér fannst þó merkilegt að kynna mér þá framkvæmd, því með engu móti gat hún orðið arðbær. Að auki var greinilegt að hagsmunir Íslendinga voru alls ekki hafðir í heiðri þar eða við byggingu álversins í Reyðarfirði. Einkum studdu þessar framkvæmdir við völd Halldórs Ásgrímssonar og hugsanlegt var að í framtíðinni kæmi sér vel fyrir Austfirði að hafa virkjun og álver í fjórðungnum.

Það er ýmislegt fáránlegt með mig. Þó ég sé orðinn gamall og slitinn og geti alveg farið út að ganga þá hef ég ekki undanfarið gert mikið af því. Í gærmorgun fór ég þó en labbaði samt ansi hægt. Auk þess er ég að fitna aftur og svo er það ekkert spennandi að labba úti núna í mykri og frosti. Líklega er ég ekki eins vel fær um að slást við myrkrið og áður, en frostið gerir mér svosem ekkert til. Í ferðinni til Evu Sigríðar heimilislæknis um daginn, hvatti hún mig til að kaupa íþróttasokka til að fá ekki bjúg á fæturna. Þetta er ég búinn að prófa og prufa kannski aftur. Einnig prófaði ég áðan nýja lyfið sem hún lét mig hafa. Fucidin held ég að það heiti.

Jólin nálgast okkur nú eins og bandóð fluga (óðfluga) og sennilega endar þetta með því að ég verð að fara að huga að jólagjöfum. Annars hef ég sloppið vel frá þessu undanfarin ár því konan mín hefur meira og minna séð um þetta og jólakortin sömuleiðis.

Jörundur hundadagakóngur er í sífelldri endurfæðingu. Jónas reyndi að gera hann að fígúru, svo var hann frelsishetja og nú er hann ævintýramaður hinn mesti. Á endanum verður hans líklega minnst í biblíusögum og jafnvel væri óhætt að trúa á hann a.m.k. til jafns við Múhammeð. Ekki veit ég hvar þetta endar en greinilegt er að veruleikinn tekur öllum skáldsögum fram. Nú um stundir getur helst enginn skrifað skáldsögu nema hafa hana glæpasögu um leið. Annars eru skáldaðir glæpir að mínum dómi flestir annars flokks.

IMG 5669Einhver mynd.


Bloggfærslur 19. desember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband