2373 - Að skeina sig

Í Fréttablaði dagsins (miðv.d. 14/10) stendur meðal margs annars, eftirfarandi:

Tugir úkraínskra flugvéla höfðu verið skotnir niður yfir þessu svæði áður en malasíska farþegaþotan flaug þar yfir og var skotin niður.

Þarna finnst mér kynbeygingin vera vitlaus: voru það ekki flugvélar sem voru skotnar niður? Eða voru það kannski tugirnir, eða hvað? Nenni ekki að senda þetta til Eiðs Guðnasonar þó full ástæða væri til þess. Allskyns beygingaruglingur finnst mér vera íslenskunni miklu hættulegri en sletturnar. Það er bara mín skoðun og kannski alröng. Held að tuðið í Eiði nái ekki til þeirra sem það ætti að ná til, þó hann hafi sennilega langoftast rétt fyrir sér. Auðvitað nær tuðið í mér heldur ekki til margra.

Blogg-gáttin http://blogg.gattin.is/ er undarlegt en ómissandi vefsetur. Þar eru bloggarar og vefmiðlar flokkaðir sundur og saman og þar var ég í 15. sæti meðal vinsælusu bloggara síðast þegar ég vissi. Ekki veit ég samt eftir hverju er farið. Undanfarna daga hef ég þó bloggað óvenju oft. Kannski er orðfærið hjá mér óvenju fornaldarlegt. Man að í afmælisveislu um daginn var mikið hlegið að mér þegar ég sagði að eitthvað minnti mig á eitthvert tiltekið orðalag í Grettissögu.

Já, nú man ég hvað það var í Grettissögu sem ég vitnaði í. Þannig er niðurlag 80. kafla:

Verkurinn tók að vaxa í skeinunni svo að blés upp allan fótinn og lærið tók þá að grafa bæði uppi og niðri og snerist um allt sárið svo að Grettir gerðist banvænn. Sat Illugi yfir honum nótt og dag svo að hann gaf að engu öðru gaum. Var þá liðið af annarri viku síðan Grettir skeindi sig.

Síðustu orðin í þessari tilvitnum held ég að nútímafólk skilji allt öðrum skilningi en söguritari. Einnig minntist ég þess að í Egils-sögu (að ég held) er minnst á það að eitt hræðilegasta vopn víkinganna í ránsferðum erlendis voru öskrin. Þegar þeir nálguðust hlaupandi og öskrandi varð allt venjulegt fólk dauðskelkað.

Svei mér ef ég er ekki að komast í skrifstuð. Kannski ég setji þetta bara upp per samstundis þó ég sé nýbúinn að gera slíkt. En þetta er nú kannski ekk nógu langt til þess og þar að auki á ég ekki fleiri nýjar myndir. Kannski ég byrji bara að setja gamlar myndir aftur einsog Guðmundur Bjarnason stakk uppá.

IMG 1693Hvað er þetta eiginlega?


2372 - Pólitíkin enn og aftur

Vel má fallast á það með Árna Páli, sem skrifar grein í Fréttablaðið í dag, (eða gær, ef útí það er farið) að full þörf sé á því að breyta stjórnarskránni. Ekki er þó sama hvernig það er gert. Það er ekki vegna þess að þingmenn séu öðrum vitlausari, sem þeir láta næstum alltaf eins og fífl þegar þeir komast í ræðustólinn. Traust fólks á Alþingi fer sífellt minnkandi og er það engin furða ef miðað er við umræðuhefðina og málþófið þar. Með bættri stjórnarskrá, en sú núverandi er greinilega um margt stórgölluð, mætti hugsanlega bæta margt á Alþingi og jafnvel auka tiltrú fólks á þeirri stofnun. T.d. er það óverjandi með öllu að ekki skuli vera annar möguleiki á þjóðaratkvæðagreiðslum en dyntir eins manns. Einnig er nauðsynlegt að koma inn ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Sömuleiðis er greinilega þörf á einhvers konar ákvæði um framsal valds.

Mikið er fjasað bæði á alþingi og víðar um verðtrygginguna. Auðvitað væri fáránlegt að afnema hana með öllu og banna. Þó er hún allsekki heilög og vel væri hægt að hugsa sér að hún væri allt öðruvísi. Gallarnir eru þó einkum fólgnir í vísitöluviðmiðunum. Kannski eru það bara vístölurnar sem þarf að afnema eða breyta. Líklega skilur Sigmundur Davíð þetta ekki og hefur ekkert látið sinna þessu, en satt að segja var það meðal helstu kosningaloforða framsóknarflokksins að afnema verðtrygginguna með einu pennastriki. Já, pennastrikin voru mörg sem framsóknarforkólfarnir lofuðu í síðustu kosningum.

Eins og fyrri daginn er ég í bestu stuði til að blogga þegar ég hef nýlega sett slíkt upp. Var að lesa núna rétt áðan frásögn frá Saudi-Arabiu, en 74 ára gamall breskur olíuverkamaður er búinn að sitja þar í fangelsi síðan í ágúst í fyrra (2014) og á núna von á 350 vandarhöggum opinberlega. Sökin: jú, hann var víst með eina eða tvær flöskur af heimabruggi í bílnum sínum. Svo var að ég held einhver alþjóðleg tilraun í gangi um daginn til að fá yfirvöld í landinu til að hætta við að gera ungan mann höfðinu styttri vegna þess að hann tók þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum þegar hann var 17 ára. Bandaríkjamenn eru að missa sig útaf þessu, en eru lítið betri sjálfir með sína byssumenningu, fjöldamorð og aftökur. Er ekki „góða fólkið“ hér á Íslandi miklu betri kostur. Áhyggjur okkar snúast mest um peninga. Síður um líf og limi.

Skyldi Simma þykja það eftirsóknarvert þegar ráðherrar samstarfsflokksins lenda í klandri? Nú er Illugi kannski að bjarga sér á hundasundi, en þá er Ragnheiður Elín að sökkva í drulluna. Eini maðurinn sem mér finnst hafa vaxið með ráðherradómnum er Gunnar Bragi og einhverjir eru einmitt að gera ráð fyrir því að dagar hans í embætti séu taldir. Vonandi þó ekki til að búa til pláss fyrir Vigdísi Hauks. Sigmundur virðist raunar hafa eitthvað á móti henni. Miðað við forfrömunina innan flokksins ætti hún að vera orðin ráðherra.

Að mörgu leyti hefur mér liðið best um ævina að Vegamótum á Snæfellsnesi. Í nótt dreymdi mig einhverja vitleysu um þá veru eins og oft áður. Fáar af þeim sögum hafa verið í letur færðar. Í draumnum í nótt var búið að grafa stóra holu í hlaðið fyrir framan veitigahúsið og verslunina og illa gekk að hafa uppá þeim sem ábyrgð bar á því. Byggð hafði aukist þar til mikilla muna. Götur margar og sum húsin hrörleg mjög. Fátt er minnisstætt úr þessum draumi nema þá helst holan stóra, sem líkleg var einhvers konar grunnur og svo rammflóknir og undarlegir farsímar.

WP 20150821 15 50 32 SmartÁ Akranesi.


Bloggfærslur 14. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband