2275 - Bókstafstrú er barnaleg

Sumir virðast setja sér það markmið að skrifa svo eða svo oft á dag á vegginn sinn á fésbókinni. Þ.e.a.s. ef þeir hafa ekkert annað þarfara að gera. Sjálfur reyni ég, ef ekki er um neitt annað aðkallandi að ræða, að skrifa nokkrar klausur í  bloggskjalið mitt daglega. Það er mikill kostur (finnst mér) að þurfa ekki að láta það frá sér fara alveg strax. Ég vil gjarnan hafa tíma til að lesa það yfir og breyta því jafnvel og bæta seinna meir eða sleppa. Satt að segja finnst mér sumt af því sem á fésbókina (og bloggið líka og fjölmiðlana) er sett vera full vanhugsað og lítið lesið yfir. Ritað mál hefur margt framyfir það talaða. Fréttatengt efni er ekki alfa og omega alls. Ýmislegt annað getur skipt máli. Þó er hægt að fá leið á krúttlegum kettlingum og jafnvel fáklæddu fólki og hrekkjum.

Bókstafstrú er barnaleg. Biblían, Kóraninn og aðrar trúarbækur voru skrifaðar inní sinn samtíma og eru ekkert merkilegri en aðrar bækur.  Innst inni eru bækur heldur ekkert sérlega merkilegar, myndir (hreyfi- eða kyrr-) heldur ekki. Það sama verður varla um hugmyndir og siðferði sagt, en ritað mál og myndir reyna auðvitað að miðla slíku.

Aðfinnslur eru yfirleitt skaðlegar. Með þeim er verið að ætlast til að allir (eða flestir) séu eins. Ekkert er fjær sanni. Hver mannvera (já og reyndar hver og ein lifandi vera) er heill heimur út af fyrir sig. Að sjálfsögðu breytist hugsunarhátturinn þó í tímans rás og skoðanir þroskast og afstaðan mildast. Hugsanlegt er að margir þeirra sem hæst hafa séu eingöngu skemmra komnir á þroskabrautinni en aðrir.

Minnir fastlega að ég hafi minnst á bótakröfu á hendur Valitors á Íslandi. Þetta gæti orðið hið fróðlegasta dómsmál. Þarna er hugsanlegt að takist á tveir helstu stjörnulögfræðingar landsins þeir Sigurður G. Guðjónsson og Sveinn Andri Sveinsson. Best væri auðvitað að þeir myndu bara slást opinberlega, en ekki er víst að af því verði.

Sennilega var Björgvin Sigurðsson lúsheppinn með að svo snemma komst upp um fjárdráttinn hjá honum. Gat meira að segja kennt öðrum (alkóhólismanum) um. Skýringar hans og yfirlýsingar um endurgreiðslur eru að engu hafandi. Fjárdráttur var þetta og ekkert annað. Skrýtið að fyrrverandi ráðherra skyldi leggjast svona lágt. Þeir sem einu sinni venjast á að hafa mikið fé handa á milli, finnst að þeir þurfi alltaf að hafa það.

Í rauninni er auðvitað nóg að skrifa um. En ég verð leiður á að skrifa langt mál um sama efni. Eflaust verða hugsanlegir lesendur ekki síður leiðir á að lesa langlokur um eitthvað sem þeir hafa kannski lítinn áhuga á. Samt er það svo að flestir leiðast út í að skrifa alltof langt mál um tiltölulega einfalda og auðskilda hluti. En fréttaskrif eru samt vinsæl hjá mörgum. Skyldi það ekki vera vegna þess að stutta formið er sífellt að vinna á. Flestir eru á móti því að hugsa lengi um sama hlutinn. Þó er það eina leiðin til að ná góðum tökum á efninu.

WP 20150101 14 27 24 ProStoltur ljósgjafi.


Bloggfærslur 20. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband