2206 - Hanna Birna og Palestína

Þjóðarmorð og allskyns þjóðernishreinsanir hafa verið mjög í tísku allt síðan Cro-Magnon menn útrýmdu Neanderdahls mönnum, eða í ein þrjátíu þúsund ár. Auðvitað eru ekki til miklar heimildir um svo gamla atburði, en heimildir um slíkar hreinsanir frá síðustu öldum eru mjög margar.

Mannkyninu fer samt fram. Þjóðarmorðum hefur fækkað og á þessari öld (sem reyndar er nýhafin) eru þau ekki mörg og vinsældir þeirra virðast fara mjög dvínandi. Einnig er vaxandi skilningur á því að styrjaldir séu óæskilegar fyrir alla aðra en vopnaframleiðendur. Meðan engin alheimsstjórn er við lýði má þó ávallt búast við einhverskonar skærum.

Þetta gæti verið ágætis inngangur að grein um Ísrael og Palestínu. Eða jafnvel um Rússa og Úkraínumenn. Svo er þó ekki. Þetta er bara venjulegt Sæmundarblogg um allt mögulegt. Þó alþjóðasamfélagið, eða þeir sem þykjast tala fyrir þess hönd, fordæmi mjög framkomu Ísraelsmanna í stríðinu á Gaza og Bandaríkjamenn glati þessa dagana stuðningi margra, ætla ég ekki að fjalla um þau mál. Þau eru svo heit að best er að halda sig frá þeim. Andstaða við USA má, að mínum dómi, ekki leiða til stuðnings við Pútín Rússlandsforseta. Í alþjóðamálum virðumst við þó vera að nálgast það ástand sem ríkti á kaldastríðsárunum.

Hér heima er lekamálið og hugsanleg afsögn Hönnu Birnu innríkisráðherra mál málanna. Ég hef ýmist spáð því að hún muni fyrir rest segja af sér eða að hún muni ekki gera það. Ég ætla ekki að spá núna. Pólitísk einbeiting hefur verið slík á þessu máli að öll önnur hafa fallið í skuggann. Veit t.d. nokkur hvernig vesalings túristunum líður þessa stundina í veskinu sínu? Eða hvar snjóhengjan margumtalaða er stödd? Hvað um lánaleiðréttinguna?

Nixon flæktist úr einu víginu í annað í Watergate-málinu forðum daga og að mörgu leyti gerir Hanna Birna það líka. Annars er samlíking með Nixon og Hönnu Birnu jafnfráleit og það væri að líkja DV við Washington Post. Aðstæður allar eru mjög ólíkar og tímarnir allt aðrir. Að fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins skuli tjá sig um þetta mál er mjög athyglisvert. Núverandi formaður getur það illa. Best að bíða bara og sjá til, hugsar hann áreiðanlega. Annars lítur út fyrir að SDG sé í mjög ítarlegu sumarfríi því það hefur ekki heyrst stuna né hósti frá honum í langan tíma.

IMG 1302

Krukkur á Akranesi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

IMG 1323Grjót og vatn.


Bloggfærslur 9. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband