2217 - Reynir Traustason

Sennilega verður Reynir Traustason látinn hætta. Ekki þarf það að þýða endalok frjálsrar blaðamennsku. Hún er einkum að færast inná netið. DV er sennilega búið að vera, enda hefur það stundum gengið fulllangt. Hinsvegar lekur virðuleikinn af Morgunblaðinu og sannfærðum sjálfstæðismönnum finnst sjálfsagt að kaupa blaðið þó ómerkilegt sé. Mér finnst það raunar ekkert gera neitt til þó einhverjir hati DV (eða Morgunblaðið) útaf lífinu. Verst af öllu er að DéVaffið ber sig alls ekki fjárhagslega. (Gerir Morgunblaðið eða Fréttablaðið það kannski?) Prensverta, pappír og dreifing eru alltof dýrir póstar og auglýsendur hafa ekki ennþá uppgötvað að netið er framtíðin. Fáir vilja setja góða peninga í þetta þegar hægt er að fá allt mögulegt ókeypis á netinu. Netverjar þurfa auðvitað að borga fyrir netsambandið en þó þeir lesi fréttir eða annað þar kostar það ekkert aukalega.

Auðvitað skiptir það alheiminn engu hvort við lifum eða deyjum. Samt látum við oft eins og það sem við gerum skipti einhverju máli. Svo er alls ekki. Allt sem lífsanda dregur er forgengilegt. Líf okkar mannanna er svo stutt að það er aðeins örstutt augnablik í sögu jarðarinnar. Sólin sem ber ábyrgð á öllu lífi á jörðinni er aðeins einn örlítill dropi í vetrarbrautinni okkar sem aftur er ein af ótölulegum fjölda slíkra. Hversvegna við látum eins og líf okkar skipti einhverju máli er allsekki gott að segja. Jú, við getum ráðið við flestöll önnur dýr á jörðinni. Það er raunar það eina sem við getum stært okkur af. Vitanlega látum við eins og það skipti öllu, en er sú raunin? Ég held ekki.

Hér fer á eftir frásögn sem áhugmenn um DV, pólitík og mínar hugleiðingar geta vel sleppt.

Löggubíll í árekstri – söguleg frásögn

Fyrri hluta níunda áratugar síðustu aldar stjórnaði ég ÚSVB (útvarps- sjónvarps- og vídeófélagi Borgarness). Margt eftirminnilegt gerðist þar og e.t.v. væri saga þess félags betur sögð en ósögð. M.a. stunduðum við um eitthvert árabil gerð áramótaþátta að hætti RUV. Eitt af því minnisstæðasta við gerð slíkra þátta var atburður sem átti sér stað í Hafnarskógi og hefur e.t.v. ekki verið færður í letur fyrr.

Þannig var að á einhvern hátt (hugsanlega með hjálp lögreglunnar) hafði okkur tekist að komast yfir gangfæran bíl sem samt var talinn alveg ónýtur og átti að henda. Á þessum árum voru bílar yfirleitt keyrðir út og gangfærum bílum var helst ekki hent. Frekar að reynt væri að troða þeim inná partasölur.

Engin afskipti hafði ég af mögulegri handritsgerð slíks þáttar, en ákveðið var að nefndur bíll ætti að velta og taka átti þá veltu upp á videótökuvél félagsins. Síðan voru einhverjir snillingar sem ætluðu að klippa þá upptöku til og nota í áramótaþátt félagsins. Á þessum tíma var klipping videóupptakna alls ekki á færi nema mjög fárra og möguleikarnir sem slíkt opnaði ótakmarkaðir. Í dag þykir þetta ekki vitund merkilegt.

Nú var haldið út í Hafnarskóg. Sjálfsagt hefur Borgarfjarðarbrúin verið komin í gagnið um þetta leyti, annars hefði okkur eflaust þótt of langt að fara þangað. Til halds og trausts var lögreglan með í för. Þegar búið var að finna hentugan stað var bílunum, sem líklega voru fleiri en lögreglubíllinn og sá sem átti að velta, lagt á heppilegan stað og byrjað að undirbúa atriðið.

Þegar allt var tilbúið, og búið að útbúa hól nokkurn sem álitinn var nægilega stór til að bíllinn mundi velta við að keyra uppá hann, var bíllinn settur í gang, steinn á bensíngjöfina og videóvélin í gang. Síðan var losað um handbremsuna og bíllinn settur af stað. Auðvitað vildi enginn vera í honum.

Til allrar óhamingju reyndist hóllinn ekki nógu stór til að velta bílnum og hann keyrði áfram og hvarf útí buskann. Liðið safnaðist nú saman og fór að rífast um hvers vegna bílskömmin hefði ekki oltið. Ekki kom mönnum að öllu leyti saman um ástæðu þess og fyrr en varði kom ónýti bíllinn æðandi aftur eftir að hafa snúið við og stefndi beint á hópinn. Hópurinn  tvístraðist að sjálfsögðu, en bíllinn hélt áfram og lenti að lokum á lögreglubílnum.

Því miður náðist þessi atburður ekki á myndband, því slökkt hafði verið á upptökuvélinni þegar veltan misheppnaðist, en eflaust hefði verið gaman að sjá þetta. Hugsanlega er frásögn af þessu ekki allskostar rétt í skýrslu þeirri sem líklegast er að hafi verið gerð til að fá viðgerðina á lögreglubílnum endurgreidda.

IMG 1577Sléttur sjór.

IMG 1578Baujur.


2216 - Hanna Birna hlýtur að hætta

Fréttatíminn, Fréttablaðið, Kjarninn, Nútíminn, DV, Morgunblaðið, Eyjan, Pressan, Egill Helgason, Jónas fyrrum ritstjóri, Miðjan og sjálfsagt ýmis fleiri blöð sem ég man ekki eftir í svipinn. Og svo öll sjónvörpin og útvörpin  maður lifandi. Það getur gert hvern mann vitlausan að ætla sér að reyna að fylgjast með þessu öllu saman. Er ekki áskrifandi að neinu svona og kannski er bara best að halla sér einkum að blogginu og fésbókinni og láta þetta alltsaman lönd og leið. Fréttir verða bara að finna mann í staðinn fyrir að maður þurfi að leita að þeim. Tístið, Instagrammið, Unglingabólurnar og allt þetta nýmóðins vesen má mín vegna líka alveg eiga sig. Timberlake jafnvel sömuleiðs.

Ég elska samsæriskenningar. Einhverjar þeirra hljóta að vera réttar. Mér finnst t.d. að lekamálið hljóti að tengjast átökum í blaðaheiminum, forystumálum í stjórnmálaflokkunum og jafnvel fyrirhuguðum breytingum á ríkisstjórninni. Verð að viðurkenna að ég á erfitt með að tengja Bárðarbungumálið við þetta altsaman. Samt hlýtur það að vera með í stóra samsæri samsæranna. Gott ef ríkisstjórnin og Alþingi er ekki flækt í það líka. Umboðsmaðurinn áreiðanlega.

Björg Thorarensem er greinilega komin í aftökusveitina. Hún segir að Innanríkisráðherra hefði alls ekki nein samskipti átt að hafa við lögregluna útaf lekamálinu og gagnrýnir Sigmund Davíð fyrir gjörðir sínar. Ekki er nokkur leið að vera henni ósammála. Undarlegt er að Simmi og Bjarni skuli enn freista þess að styðja Hönnu Birnu, þó með hálfum huga virðist vera. Eiginlega er hún núna komin í þá stöðu að þeir tveir og Stefán fyrrum lögreglustjóri ættu hægt með leggja pólitískan feril hennar í rúst auk þeirra blaðamann sem sannleikann þekkja. Allt virðist benda til að skrápurinn á henni sé jafnsterkur og jarðskorpan fyrir norðan. Almenningur bíður með öndina í hálsinum eftir því þessa dagana að fá að vita hvort gefur sig á undan.

Annars er allsekki grín gerandi að þeirri stjórnsýslulegu kreppu sem komin er upp vegna þeirrar áráttu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að þrjóskast við að sitja áfram sem ráðherra. Hún gerir ríkisstjórninni stóran óleik með því. Gaman verður að fylgjast með því hvernig þingmálin ganga fyrir sig á komandi þingi. Hræddur er ég um að mestallt púðrið fari í einskisverð aukaatriði og þetta þing komi alls engu í verk. Vantrauststillaga Pírata gæti vel fallið í aukaatriðisflokkinn.

Sko, nú er ég langt kominn með að skrifa heilt blogg að mestu um Hönnu Birnu, þó ég hati í raun og veru pólitík. Svona er nú tíkin sú einkennileg og uppáþrengjandi.

IMG 1563Íbúðarhús?

IMG 1564Snigill, eða eitthvað.


Bloggfærslur 28. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband