2164 - Munnvatn o.fl.

Minnir að ég hafi sagt það í síðasta bloggi mínu að Hanna Birna Kristjánsdóttir innarríkisráðherra mundi segja af sér eða fórna einhverjum af aðstoðarmönnum sínum. Nú sýnist mér líklegast að endirinn verði sá að einhver blaðamaður eða fréttastjóri á Morgunblaðinu taki að sér hlutverk „litla Landsímamannsins“ í þessu máli. Verði semsagt gert að taka pokann sinn frekar en að segja nokkuð. Jafnvel er líklegt að Hönnu Birnu verði sparkað uppá við.

Lögreglan reynir sjálfsagt að gera sitt besta í þessu máli, en á eflaust erfitt með að beita sér. Mér virðist samt trúverðugleiki ráðuneyta ætla að minnka mikið. Engin ástæða er til að ætla að önnur ráðuneyti beiti ekki svipuðum meðölum. Það er heldur engin ástæða til að ætla að fyrri ríkisstjórnir hafi ekki hagað sér líkt. Spilling á Íslandi er mikil, hvað sem einhverjar stofnanir segja, sem rannsaka ákveðnar tegundir hennar.

Ekki fylgist ég mikið með Ensku knattspyrnunni. Pulis var arftaki Guðjóns Þórðarsonar hjá Stoke og kom þeim í úrvalsdeildina minnir mig. Stokarar ráku hann og ég held endilega að hann sé stjóri hjá Crystal Palace núna og gott ef þeir voru ekki í fallhættu þegar hann tók við þeim. Það lið (Crystal Palace) stal sennilega Englandsmeistaratitlinum frá Liverpool um daginn og gott ef þeir hafa ekki afhent Manchester City hann. En ég tek það fram að ég er ekki áhugamaður um knattspyrnu.

Mér finnst það ljótur leikur hjá Íslenskri Getspá að reyna að fá fólk til að kaupa lottómiða með því að gera sem mest úr því þegar svo hittist á að hár vinningur kemur á góðan stað. Slíkt gerist ekki oft og þeir sem hafa efni á að kaupa sér reglulega lottómiða er oftast nær sæmilega stætt fólk. Að gefa annað í skyn er óraunverulegt mjög. Auk þess eru vinningslíkur í lottóinu fremur litlar og þeir sem miða kaupa þar eru einkum að því til að fá spennuna sem því fylgir og hinsvegar að styrkja þá sem góðs njóta af gróðanum.

Og svo vill Kári fá munnvatnssýnishorn frá næstum öllum. Ekkert bréf slíku viðvíkjandi hef ég samt fengið. Það hefði í mínu tilfelli sett mig í svolítinn vanda. Upplýsingar af þessu tagi er svo auðvelt að misnota. Hvað sem einhverjar nefndir segja. Goodwillið sem Íslensk Erfðagreining naut einu sinni á Íslandi á ekki lengur við. Það fyrirtæki er fyrir löngu komið í eigu annarra.

Undanfarið hafa nokkrar frátafir orðið hjá mér við bloggskrif og stafar það af ýmsum ástæðum. Er heldur ekki viss um að blogg séu mikið lesin þessa dagana fyrir vorhug fólks. Verið getur að Ásgautsstaðamálið sé á leiðinni í nýjan farveg og ekki vil ég trufla þann gang.

IMG 0386Tré.

IMG 0391Mosavaxinn staur.


Bloggfærslur 8. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband