2163 - Hanna Birna

Þeir sem éta alltaf sem allra hollastan mat og fara með margar heilbrigðismöntrur í huganum áður en þeir láta nokkuð inn fyrir sínar óbótoxuðu varir reikna kannski með því að lifa lengur en pöpullinn sjálfur sem dregur fram lífið, horfir á heimskulegan fóltbolta og étur ruslfæði ómælt, jafnvel um leið. Áhyggjufólkið verður samt alltaf færra en þeir sem á fótboltann horfa og kannski ræður ruslfæðið þar ekki úrslitum. Pöpullinn og þeir sem þar fyrir neðan eru, hafa nefnilega engin efni á heilsufæðinu.

Semsagt ólundin og eltingaleikurinn við náttúruna á að bjarga öllu. En þetta er bara of seint í rassinn gripið. Það er örlítill minnihluti forréttindafólksins sem getur látið svona, aðrir verða bara að éta það sem til fellur og ódýrast er, til að halda lífi og svo fjölgar þeim miklu hraðar en náttúrufólkinu.

Ofan á allt er reynt að hræða þetta fólk með þvi að allt sé að fara til fjandans með heimshlýnun, svo rosalegri að annað eins hafi aldrei sést. Pöpullinn treður sig bara út með frönskum og vonar að ísöldunum fækki þá og stríðunum. (Enginn nennir að berjast í 50 stiga hita, eða hvað?)

Nei, ætli það sé ekki bara best að hafa það eins og vant er og sjá hvort vísindamönnunum tekst ekki að finna ráð við þessum vanda eins og öðrum. Þeir eru vanir því og það er alveg hellingur sem á eftir að finna upp.

Nýi flokkurinn virðist bara hafa skráð urlið: vidreisnin.is en ekki vidreisn.is. Það finnst mér lélegt. Annars er þarna lítið að sjá. Kannski meira fyrir þá sem skrá sig, veit það ekki. Einhvernvegin verður samt að byrja.

Ég komst í eitthvert deilingarstuð á fésbókinni í gær. Deildi m.a. rollumynd frá Kalla Jóhanns og fékk heilmargar athugsemdir við þá mynd. Hlustaði auk þess á þátt Gísla Marteins að miklu leyti (þó ekki í rauntíma) og ég verð að segja að mér þótti Guðni Ágústsson komast mjög illa frá honum. Á löngum köflum vildi hann helst ráða því alveg hvað væri rætt um og Gísli Marteinn lét hann komast upp með það. Bæði hann sjálfur og Gísli virtust helst halda að hann væri einhvers konar skemmtikraftur þarna. Hallgrímur og Rakel reyndu að taka þetta alvarlega. Kári Stefánsson var eins hátíðlegur og uppþembdur og hann er vanur. Hlustaði að vísu ekki á allt sem hann hafði að segja. Viðtalið við oddvita framsóknar í Reykjavík (sem segist reyndar búa í Kópavogi) færði mér heim sanninn um að framsóknarmenn ná líklega ekki inn manni þar.

Hallgrímur Helgason er ansi beittur í stjórnarandstöðu sinni og frammarar og sjallar hafa ekki hugmynd um hvernig þeir eigi að taka á honum. Kæmi ekki á óvart þó núverandi ríkisstjórn ræki upp á sker. Bara að það valdi ekki miklu tjóni.

Bæjarstjórnarkosningarnar sem áreiðanlega verða í lok maí eru ekki þær kosningar sem vert er að fylgjast með. Þær kosningar sem beðið er eftir eru þær í Úkraínu. Og þær eiga að verða 25. maí. Hvort svo verður er alls ekki víst. Ef af þeim verður og þær verða sæmilega viðurkenndar þá er hugsanlegt að komast megi hjá borgarastyrjöld þar, annars varla.

Auðvitað er ég sammála því að Hanna Birna hlýtur að víkja eða einhver af hennar nánustu samstarfsmönnum. Það er ólíklegt að hún hafi lekið minnisblaðinu sjálf. Ekki er hægt að sanna að hún hafi vitað af því fyrirfram. Einhver af hennar nánustu samstarfsmönnum gerði það samt. Ef henni tekst ekki að fá fram játningu ber henni að sjálfsögðu að víkja sjálfri vegna ábyrgðar sinnar á því sem ráðuneytið gerir.

IMG 0384Villu varnað.


Bloggfærslur 5. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband